Mynd: ABC News
Mynd: ABC News

Streita er því miður daglegur gestur margra einstaklinga í nútímasamfélagi. Hraðinn og kröfur samfélagsins geta gert lífið ansi stressandi á köflum. Það hefur löngum verið vitað að streita, þ.e. stress í óhófi hefur neikvæð áhrif á heilsu okkar og hefur jafnvel verið tengt við krabbamein. En fyrst núna hefur vísindahópur við Monash Institute, í Ástralíu sýnt fram á hvaða áhrif streita getur haft sem eykur framgang krabbameina.

Í rannsókninni sem var birt í Nature Communications skoðar hópurinn áhrif langvarandi streitu á mýs sem þjást af krabbameini. Þegar mýs, undir miklu álagi, voru bornar saman við óstressaðar mýs kom í ljós að krabbameinið dreifði sér fyrr í stressuðu músunum. Þegar ferillinn var skoðaður frekar kom í ljós að krabbameinið og ónæmisfrumur senda mikilvæg merki til sogæðakerfisins. Sogæðakerfið er æðakerfi sem liggur um allan líkaman og gegnir því hlutverki að soga upp vökva sem líffæri seyta út og færir vökvann inní blóðrásina.

Þegar bæði krabbamein og ónæmiskerfið fara að stríða sogæðakerfinu vegna streitu eykst hraði sogæðakerfisins, þannig að meinvarpandi krabbameinsfrumur losnar hraðar útúr uppruna líffæri sínu auk þess sem sogæðakerfið er móttækilegra fyrir þessum frumum og skýtur þeim áfram á nýjan stað í líkamanum þar sem þær geta tekið sér bólfestu.

Þessi rannsókn tengir alls ekki saman myndun krabbameina og streitu heldur er hér um að ræða framvindu krabbameina sem þegar hafa myndast. Þetta getur hljómað frekar flókið, hvernig er hægt að forðast streitu þegar maður er að berjast við krabbamein, það hlýtur að vera ansi streituvaldandi. Það er auðvitað rétt og ekki hægt að biðja krabbameinssjúklinga vinsamlegast um að slaka bara á.

Það vill þó svo einstaklega heppilega til að við höfum lengi verið að berjast við afleiðingar streitu í samfélaginu og þar á meðal við háan blóðþrýsting. Margir þeirra sem hafa greinst með háan blóðþrýsting kannast við lyfjaflokk sem kallast beta-blokkerar, en það eru lyf sem hindra svokallaða beta viðtaka í æðakerfinu og valda þannig slökun á því sem svo lækkar blóðþrýstinginn.

Svo ótrúlega vel vildi til að þegar músunum var gefið ákvðið beta-blokker lyf sem kallast propranolol, þá minnkuðu áhrif streitunnar á útbreiðslu krabbameinsins. Til að sannreyna þessar niðurstöður skoðaði vísindahópurinn sjúkrasögu krabbameinssjúklinga sem einnig þjáðust af of háum blóðþrýstingi og sáu að þeir sjúklingar dóu síður vegna meinvarpa en þeir sem ekki notuðu beta-blokkera.

Nú stefnir hópurinn að því að framkvæma rannsókn til að staðfesta þetta í konum með brjóstakrabbamein. Hluta hvennanna verða þá gefnir beta-blokkerar og öðrum hluta verður gefin lyfleysa. Með þessu vill vísindahópurinn athuga hvort áhrif beta-blokkerana á meinvörp séu raunveruleg. Það verður mjög spennandi að fylgjast með þessum rannsóknum sem vonandi gefa góða raun og munu hjálpa okkur í baráttunni við krabbamein.