Hvatinn fjallaði, fyrir ekki svo löngu síðan um grein sem rannsóknarhópur við John Hopkins birti í Science. Í rannsókn sinni útlistar hópurinn hvernig skimun í blóði eftir átta prótínum eða stökkbreytingum í 16 genum getur haft spádómsgildi um það hvort einstaklingur sé með krabbamein eða ekki.

Enn sem komið er hafa þessar blóðprufur ekki verið nægilega góðar til að hægt sé að nota þær í klínískum tilgangi. En fyrsta skrefið verður alltaf minna en vonast er til. Þó virðast nú fleiri lítil skref vera að bætast í hópinn sem bendir til þess að ferðalagið sé hafið.

Rannsóknarhópur við University Health Network birti sambærilega rannsókn í Nature á dögunum. Þar er ekki notast við sömu lífmerki (biomarkers), í stað stökkbreytinga er notast við svokallaðar utangenaerfðir, nánar tiltekið metýleringu á erfðaefninu til að segja til um hvort einstaklingur sé með krabbamein, eður ei.

Í rannsókninni eru 300 sjúklingar, með krabbamein í hinum ýmsu líffærum skoðaðir, þá er erfðaefni þeirra einangrað úr blóðsýni sem og krabbameinssýni. Síðan er metýlering á erfðaefninu borin saman og vefjasýnin svo pöruð saman.

Enn sem komið er eru allar hugmyndir um skimun fyrir krabbameinum með blóðprufum einungis á hugmyndastigi. Þessar rannsóknir sem hér er fjallað um benda þó til þess að fljótlega verðum við með nægilega stóran gagnabanka til að geta hrint einhvers konar skimun í framkvæmd.

Ýmsir vankantar eru þó á því að skima fyrir krabbameinum með þessum hætti. Vankantarnir eru eiginlega tvenns konar, annars vegar falskar jákvæðar niðurstöður, þar sem fólk greinist með krabbamein sem er ekki til staðar. Og hins vegar falskar neikvæðar niðurstöður, þar sem fólk er með krabbamein en það greinist ekki.

Ef skimanir sem þessar komast á koppinn er mikilvægt að hlutfall þeirra sem fá falskar niðurstöður sé í algjöru lágmarki. Að auki verður að gæta þess að einstaklingar verði ekki værukærir gagnvart sjúkdómseinkennum krabbameina ef til skimanna kemur. Þetta getur komið fram í því að einstaklingar hunsa einkenni krabbameina, vegna sannfæringar sinnar um að blóðprufan hafi skilað afgerandi niðurstöður.

Það er því enn nokkuð langt í land, en vonandi mun okkur í framtíðinni takast að skima fyrir nær öllum krabbameinum og ná þannig að greina þau á fyrstu stigum áður en þau verða illmeðfærileg.