Plant_drug

Krabbameinslyfið etoposide er lyf sem notað er til að meðhöndla alls kyns krabbamein, m.a. lungnakrabbamein og hvítblæði. Þetta efni er eitt þeirra lyfja sem fundist hafa í plöntum en sjaldgæf planta sem finnst í Himalaya fjöllunum framleiðir forvera etoposide sem varnarviðbragð. Þar sem framleiðandinn er sjaldgæf planta getur verið erfitt að nálgast lyfið, en nú verður vonandi breyting þar á.

Á rannsóknarstofu í Stanford skilgreindi hópur undir stjórn Elizabeth Sattely aðferðina sem plantan notar til að búa til hið eftirsóknarverða efni. Ekki nóg með að hópurinn skilgreindi ferilinn heldur tókst þeim einnig að setja hann inní aðra plöntu sem auðveldara er að rækta og er reyndar mikið notuð í rannsóknarvinnu, tóbaksplöntuna.

Með þessu móti er hægt að framleiða mun meira af krabbameinslyfinu á hagkvæmari hátt. Næsta skref hópsins er að setja framleiðsluferilinn inní gersvepp, sem einnig er mikið notaður í rannsóknarvinnu. En kosturinn við að láta gersveppinn framleiða efnið er að hann vex gríðarlega hratt og lætur auðveldlega að stjórn.

Aðferðafræðin sem hér er beytt hefur stundum verið kölluð líf-verkfræði (bioengeneering). Aðferðin snýst um að hámarka nýtni ferla sem við nýtum okkur, til dæmis við framleiðslu lyfja eða lífeldsneytis. Þessi aðferð er gott dæmi um jákvæðar afleiðingar þess að geta erfðabreytt lífverum, en þegar planta á rannsóknarstofu er látin framleiða etoposide er það gert með því að setja ákveðin gen, sem tilheyra framleiðsluferlinum, inní frumur plöntunnar og gefa henni þannig eiginleikann til að framleiða lyfið.

Elizabeth Sattely útskýrir þetta nokkuð vel í myndbandinu hér fyrir neðan.

Tengdar fréttir: Hvað eru erfðabreyttar lífverur?