lett skokk

Hvern hefði grunað að hreyfing gæti haft jákvæð áhrif á líkamann? Jú kannski flesta þar sem þetta er alls ekki fyrsta fréttin sem við lesum um slík áhrif. En nýlega var birt rannsókn bendir til þess að hreyfing samhliða krabbameinsmeðferð auki áhrif meðferðarinnar.

Áhrif hreyfingar hefur löngum verið þekkt og heilbrigðisstarfsfólk mælir með hreyfingu á meðan á krabbameinsmeðferð stendur. Að stórum hluta vegna þess að hreyfing dregur úr aukaverkunum krabbameinslyfja á borð við þreytu, vöðvarýrnun en líka vegna þess að hreyfing er holl fyrir sálina sem veitir kannski ekki af á erfiðum tímum. Hópur sem leiddur var af Brad Behnke við Kansas State University vildi sýna fram á að hreyfing hreyfing getur einnig haft áhrif á krabbameinsmeðferðina sjálfa.

Rannsóknin var framkvæmd á rottum sem annars vegar fengu ígrædd í sig íllkynja blöðruhálskirtilskrabbamein og hins vegar góðkynja æxli. Síðan voru mælingar gerðar á æxlunum meðan rotturnar hreyfðu sig eða meðan þær voru í hvíld.

Rannsóknin leiddi í ljós að við hreyfingu örvast blóðflæðið til æxlisins. Með auknu blóðflæði eykst súrefnisupptaka í vefnum, en æxli hafa oft náð þeim hæfileika sem eðlilegar frumur hafa ekki, að vaxa við loftfirrtar aðstæður. Með auknu blóðflæði eru þessar loftfirrðu aðstæður upprættar svo eðlilegar frumur eiga afturkvæmt sem og að æxlisfrumurnar eru margar hverjar komnar á það stig að þola illa súrefni. Það sem gerist að auki, og er jafnvel mikilvægara, með auknu blóðflæði er að þá eiga krabbameinslyf greiðari aðgang að æxluni sjálfu. Þegar fáar eða engar æðar liggja að æxlinu getur verið erfitt að flytja lyf þangað að, en hreyfingin stuðlar að því.

Höfundar greinarinnar leggja þó áherslu á að gæta meðalhófs. Lítil eða engin hreyfing getur haft neikvæð áhrif en það sama gildir um of mikla eða of erfiða hreyfingu. Þá fer blóðflæðið frekar í orkufrekari líkamsparta eins og vöðva, hjarta og lungu og að auki veiklast ónæmiskerfið við of mikla hreyfingu. En ónæmiskerfið gegnir mikilvægu hlutverki í baráttu líkamans við krabbamein. Mæla höfundar greinarinnar því með röskri göngu eða léttu skokki til að fá fram þau áhrif hreyfingarinnar sem ætlast er til.

Það besta við hreyfingu sem samhliða meðferð er að nánast engar neikvæða aukaverkanir eru til staðar svo þó hreyfingin hafi engin áhrif á lyfjameðferðina þá gerir hún engan skaða.