Mynd: NTNU
Mynd: NTNU

Um allan heim starfar fjöldi vísindahópa við að skilgreina krabbamein af öllum gerðum. Tilgangurinn er að auka lifunarlíkur krabbameinssjúklinga með því að gefa þeim sértækari meðferðir, skilgreina áhættuþætti sem örva vöxt krabbameina og þróa skilvirkari aðferðir til að greina krabbamein. Oft virðist þessi vinna taka langan tíma og lítil þróun eiga sér stað. En þó skrefin séu smá þá eru þau sannarlega til staðar og geta skipt sköpum fyrir þá einstaklinga sem lenda í því að berjast við sjúkdóminn einhvern tíman á lífsleiðinni.

Í nýjustu samantekt The American Cancer Society kemur fram að dauðsföllum í Bandaríkjunum vegna krabbameina hefur fækkað umtalsvert, eða um 23% síðan 1991 en þá voru dauðsföllin flest, og þeim fer enn fækkandi. Á þessum 24 árum hafa ótal rannsóknir verið framkvæmdar sem hægt og bítandi verða þess valdandi að dauðsföllum fækkar.

Þennan árangur getum við þakkað allri þeirri þekkingu sem nú liggur fyrir um sjúkdómana sem við köllum einu nafni krabbamein. Með því að skilgreina hvað gerist í krabbameinsfrumum getum við fundið betri lyfjamörk, skilvirkari aðferðir til greininga og það sem væri auðvitað best af öllu væri að skilgreina hvaða áhættuþættir liggja að baki krabbameinsmyndun svo hægt væri að lækka nýgengi þeirra. Sem dæmi um áhættuþátt má nefni reykingar, en með öflugu forfarnarstarfi má koma í veg fyrir milljónir krabbameinstilfella á heimsvísu.

Fyrir þá sem vilja kafa dýpra og sjá hvernig skiptingin er milli krabbameinstegunda, þá er hægt að nálgast skýrsluna hér. Rétt er að ítreka að þessi skýrsla er tekin saman um krabbameinstilfelli í Bandaríkjunum en leiða má líkur að því að hlutföllin séu svipuð í restinni af hinum vestræna heimi.