cycling-655565_1280

Við erum flest meðvituð um það að regluleg hreyfing gerir okkur gott og er mikilvæg til að halda heilsu út ævina. Samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar eru reglulegar gönguferðir um hverfið þó ekki nóg til að hægja á öldrun líkamans heldur skiptir máli hversu krefjandi líksmræktin er.

Rannsóknin greindi gögn frá 5.823 fullorðnum einstaklingum sem tóku þátt í könnun á heilsu fólks á vegum Centers for Disease Control and Prevention í Bandaríkjunum. Auk þess að svara spurningakönnun var lengd telómera þátttakenda skráð.

Telómerar eru litningaendar frumna. Í hverst skipti sem fruma í líkamanum skiptir sér styttast telómerar hennar og er lengd þeirra nýttur sem mælikvarði á öldrun frumna í líkamanum.

Í ljós kom að þeir þátttakendur sem höfðu stysta telómera og sýndu þar af leiðandi mest merki öldrunar voru þeir sem hreyfðu sig minnst. Þeir sem stunduðu krefjandi líkamsrækt nokkrum sinnum í viku höfðu aftur á móti lengstu telómerana og samsvaraði lengd þeirra því að tefja öldrun um níu ár miðað við þá sem ekki stunduðu líkamsrækt. Ekki greindist marktækur munur á milli þeirra sem stunduðu lítið eða hóflega krefjandi líkamsrækt og þeirra sem ekki stunduðu líkamsrækt.

Góðu fréttirnar eru því þær að niðurstöðurnar benda til þess að hægt sé að hægja töluvert á öldrun með reglulegri líkamsrækt. Þær slæmu, að minnsta kosti fyrir þá sem hafa ekki gaman af því að mæta í ræktina, eru að líkt og með svo margt annað þarf að hafa fyrir árangrinum með því að stunda krefjandi líkamsrækt.

Ekki er vitað nákvæmlega hvaða ferlar eru hér að verki en líklegt þykir að líkamsræktin dragi úr bólgumyndun og skaðlegu efnaójafnvægi í líkamanum.

Niðurstöður rannsóknarinnar birtust í tímaritinu Preventative Medicine.