Mynd: CureJoy
Mynd: CureJoy

Margir hafa eflaust heyrt talað um svokallað „karla-kvef“ eða „manflu“ sem lýsir sér í því að karlar virðast oft eiga erfiðara með að kljást við hefðbundin veikindi á borð við flensu, samanborið við konur. Oftast hefur þetta fyrirbæri verið skrifað á minni getu karla til að þola óþægindin sem veikindunum fylgja, en nú virðist vera komin ný skýring á þessu annars undarlega fyrirbæri.

Í rannsókn sem birtist í American Journal of Physiology voru frumur einangraðar úr sjálfboðaliðum, bæði karlkyns og kvenkyns, og síðan sýktar með inflúensuveiru. Á sama tíma voru frumurnar meðhöndlaðar með þremur mismunandi gerðum af estrógenum. Eftir þessa meðhöndlun sást að kvenkynsfrumur mynduðu færri veiru, þ.e. voru minna sýktar en frumur úr karlkynssjálfboðaliðum.

Samkvæmt þessum niðurstöðum veitir kvenhormónið estrógen vörn gegn veirusýkingum, en slíkar vísbendingar hafa einnig fengist við rannsóknir á öðrum veirum á borð við HIV. Í umræddri rannsókn var þó í fyrsta sinn notast við fyrsta stigs frumur einangraðar úr sjálfboðaliðum, þ.e. heilbrigðar frumur en ekki frumur sem vaxa hömlulaust eins og krabbameinsfrumur. Að auki var estrógen viðtaki beta skilgreindur sem frumuviðtakinn sem miðlar veiruvörninni áfram. Skortur á þessum viðtaka gæti verið skýringin á því hvers vegna frumur karla bregðast síður við estrógen meðhöndlun en frumur kvenna.

Þessi rannsókn er því fyrsta af mörgum til að skilgreina þau skref sem felast í veiruvörn estrógens. Í framhaldinu væri fróðlegt að sjá hvort hægt verði að nota sambærilega ferla til að hindra með öllu veirusmit á borð við inflúensu eða jafnvel HIV smit.