Mynd: Wikipedia
Mynd: Wikipedia

Flestir eyða hluta af ævinni í að leita sér að maka. Það er misjafnt hvers konar maka við viljum en öll löðumst við að mismunandi fólki. Sameindarannsóknir á því á hverju við byggjum tilfinningar okkar í makavali eru ekki mjög útbreiddar, en ein slík var kynnt í Baltimore fyrir stuttu, þar sem sjónum var beint að því hvoru kyninu við löðumst að.

Tuck Ngun sem starfar við University of California, Los Angeles, kynnti niðurstöður rannsóknarhóps síns á ráðstefnunni American Society of Human Genetics (ASHG) 2015 Annual Meeting. Hópurinn segist geta spáð fyrir um kynhneigð karlmanna með greiningu á utangenaerfðum, nánar tiltekið metýleringum, sem eru breytingar á erfðaefninu sem ráða því hversu mikið genin eru tjáð.

Rannsóknin var unnin á u.þ.b. 50 pörum af eineggja tvíburum. Meðal þeirra voru 37 pör þar sem annar tvíburanna var samkynhneigður en hinn ekki. Til að greina á milli samkynhneigðra og gagnkynhneigðra var tekið strok innan úr munnholi allra sjálfboðaliðanna og erfðaefnið skoðað með tilliti til metýleringar. Í ljós kom að níu svæði voru breytileg að þessu leiti þegar bornir voru saman samkynhneigðir og gagnkynhneigðir.

Gagnrýnisraddir hafa ekki látið á sér standa varðandi rannsóknina en samkvæmt þessu prófi er hægt að spá fyrir um kynhneigð með 70% nákvæmni. Helsta gagnrýnin sem rannsóknin fær er að þetta er nánast svo lágt hlutfall að það er á mörkum þess að vera marktækt. Til að svara þessari gagnrýni þyrfti að sannreyna niðurstöðurnar á enn stærra þýði, en hópur Ngun vinnur nú að því.

Hins vegar mætti líka spyrja sig hvaða tilgang rannsóknir sem þessar hafa. Oft halda vísindamenn af stað með áhugaverða rannsóknarspurningu, í þessu tilfelli: Hvað stjórnar því að við löðumst kynferðislega að annarri manneskju? Slíkri spurningu er áhugavert að svara en hún getur líka aukið fordóma gagnvart þeim hópum sem hafa lengi þurft að berjast fyrir réttindum sínum, eins og samkynhneigðum. Tilgangurinn með rannsókninni er ekki að búa til próf sem gerir okkur kleift að fiska úr samkynhneigða heldur að skilja betur sameindalíffræðina á bak við þennan algenga atburð, makaleit. Vísindamenn verða þó alltaf að gera sér grein fyrir því að þó rannsóknarspurningin sé áhugaverð þá eru líka siðferðilegar spurningar sem við verðum að taka tillit til í rannsóknum.