1280px-Aedes_aegypti

Vísindamenn fundu nýlega gen sem gerir þeim kleift að breyta kvenkyns moskítóflugum af tegundinni Aedes aegypti í karlkyns flugur. Kynskipti á moskítóflugum gæti hjálpað í baráttunni við fjölmarga sjúkdóma, til dæmis dengue og gulusótt.

Rannsóknin sem um ræðir var framkvæm við Virginia Tech í Bandaríkjunum. Vísindamennirnir fundu gen sem nefnist Nix og er aðeins að finna í karlkyns flugum. Eftir að genið var fundið notuðu vísindamennirnir tækni sem nefnist CRISPR-Cas9 til að slökkva á því og urðu flugurnar kvenkyns í kjölfarið. Rannsóknarhópurinn prófaði síðan að sprauta Nix geninu í fósturvísa moskítóflugna og var útkoman sú að tveir þriðju af flugunum sem hefðu átt að þroskast í kvenkyns flugur urðu karlkyns.

Tæknin hefur ekki verið fullkomnuð en rannsóknarhópurinn stefnir að því að gera frekari rannsóknir. Aedes aegypti ber með sér marga sjúkdóma og smitast þeir í okkur mennina þegar kvenkyns flugur sjúga úr okkur blóð. Með því að fækka kvenkyns flugum í náttúrunni vonast vísindamenn til þess að hægt sé að ná meiri stjórn á útbreiðslu ýmissa smitsjúkdóma.