Mynd: AccraFM
Mynd: AccraFM

Flestir sem hafa stundað skemmtanalífið kannast við þá hungurtilfinningu sem sækir að þegar skemmtistaðirnir loka undir morgun. Margir gætu haldið að hungrið sé afleiðing dansa kvöldsins en svo er líklega ekki. Nýlega birt rannsókn sem framkvæmd var á músum sýnir að drykkja hefur áhrif á matarlyst.

Í rannsókninni var músunum skipt í tvo hópa, annar hópurinn fékk áfengi en hinn ekki. Mýsnar sem fengu áfengi borðuðu marktækt meira en þær mýs sem ekki fengu áfengi. Þetta kemur líklega ekki á óvart, enda þekkt að drykkja eykur matarlyst. Hvers vegna var hins vegar á huldu.

Í þessari tilteknu rannsókn mældi rannsóknarhópurinn virkni taugafrumna sem treysta á prótínið AgRP (agouti-related protein) sem boðefni. Í ljós kom að mikil virkni var í þessum taugum í heila en prótínið hefur áður verið tengt við matarlyst. Þegar mýsnar voru meðhöndlaðar með AgRP hindra varð engin breyting á matarinntöku þeirra við áfengisneyslu.

Þeir sem hafa nú þegar hafið janúar-átakið en ætla að skemmta sér um helgina ættu því að leggja sitt af mörkum til að minnka áhrif áfengisneyslunnar á AgRP. Einfaldasta leiðin til að þess er sennilega að innbyrgða lítið eða ekkert áfengi.