_92376439_paralysed_monkey

Vísindamenn hafa lengi reynt að finna meðferð við mænuskaða og gefa niðurstöður rannsóknarhóps í Sviss vonir um að meðferð sé í augsýn. Meðferðin felst í þráðlausri tækni og gaf góða raun í prófunum á rhesus öpum. Vonir standa til að klínískar prófanir á mönnum geti hafist innan áratugs.

Lömun á sér stað þegar skaði á mænu kemur í veg fyrir flæði rafboða frá heilanum til ákveðinna hluta líkamans. Þannig komast boðin ekki á áfangastað og getur einstaklingurinn ekki hreyft þá líkamshluta. Í rannsókninni sem um ræðir notuðu vísindamenn nýja tækni til að fara framhjá skaðanum svo boðin kæmust til skila.

Aparnir í rannsókninni höfðu verið lamaðir á einum fæti og var örflögu síðan komið fyrir í þeim hluta heilans sem stýrir hreyfingu. Örflagan las toppa í rafboðum sem gefa fyrirmæli um að hreyfa útlimi og sendi þau í tölvu sem staðsett var nálægt dýrunum. Því næst las tölvan úr skilaboðunum og sendi boð til ígræðslu í hrygg apans sem örvaði loks þær taugar sem hreyfa útliminn.

Ferlið átti sér stað í rauntíma og innan sex daga höfðu aparnir náð að stýra lamaða útlimnun að svo miklu leyti að þeir gátu gengið í beinni línu á hlaupabretti.

Þetta er í fyrsta skipti sem tekist hefur að endurheimta hreyfigetu í lömuðum lið í prímötum og sagði Dr Gergoire Courtine, einn höfunda greinarinnar, að hreyfingin hafi verið nálægt eðlilegu göngulagi. Ekki hefur verið kannað hvort aparnir geti framkvæmt flóknari hreyfingar á borð við að beygja með tækninni.

Þó niðurstöðurnar lofi góðu er ekki víst hvort tæknin komi til með að virka jafn vel í mönnum. Rannsóknarhópurinn bendir á að aparnir gangi á fjórum fótum og í þessu tilviki hafi aðeins einn útlimanna verið lamaður. Það er því óvíst hvernig tæknin myndi virka í mönnum sem ganga á tveimur fótum enda skipti jafnvægi meira máli.

Rannsóknin var framkvæmd við Swiss Federal Institute of Technology og voru niðurstöður hennar birtar í tímaritinu Nature.