TeenExercise_062613

Niðurstöður rannsóknar á vegum Vanderbilt Epidemiology Centre í Bandaríkjunum benda til þess að tengsl séu á milli líkamsræktar á unglingsaldri og dánartíðni kvenna.

Í rannsókninni voru gögn 74.941 kvenna á aldrinum 40-70 ára sem fengin voru úr kínveskri rannsókn, Shanghai Women’s Health Study, notuð. Markmiðið var að kanna hvaða áhrif líkamsrækt snemma á lífsleiðinni hefur á heilsufar og dánarlíkur kvenna.

Þátttakendur hófu þátttöku í rannsókninni á milli áranna 1996 og 2000 og voru þeir spurðir út í það hvernig og hversu mikla hreyfingu þeir stunduðu á unglingsaldri. Að auki voru þátttakendur spurði um líkamsræktarvenjur á fullorðinsárum til að kanna hvort þær hefðu áhrif.

Í ljós kom að það að stunda líkamsrækt í 1,3 klst á viku hafði jákvæð áhrif á konurnar þegar þær fullorðnuðust. Þær konur sem stunduðu líkamsrækt á unglingsaldri höfðu 16% lægri dánartíðni af völdum krabbameina en þær sem gerðu það ekki og 15% lægri dánartíðni almennt. Ekki virtist skipta máli hvort konurnar héldu áfram að stunda líkamsrækt á fullorðinsárum.

Þó svo að þessi tengsl hafi fundist á milli líkamsræktar á unglingsaldri og dánartíðni seinna á lífsleiðinni er ekki vitað af hverju þau stafa. Það liggur í augum uppi að aukið líkamlegt heilbrigði er líklegt til að hafa jákvæð áhrif á heilsufar en það skýrir ekki hvers vegna áhrifanna virðist gæta á fullorðinsaldri. Vænta má að vísindamennirnir reyni í framhaldinu að skýra ástæðurnar sem liggja að baki.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í tímaritinu Cancer Epidemiology, Biomarkers & Prevention og má lesa nánar um rannsóknina á vefsíðu ScienceAlert.