agingface2

Aldurinn færir okkur reynslu og þekkingu, sem er algjörlega ómetanleg. En aldurinn færir okkur líka hrukkur og grá hár, sem ekki eru metin að sömu verðleikum. Nú hafa vísindamenn fundið lausnina við öldrun, stökkbreyting í TIMP1 og TIMP3.

TIMP1 og TIMP3 eru gen sem kóða fyrir prótínunum sem hvata frumulifun og hindra prótín sem brjóta niður utanfrumuefni. Þegar bæði þessi gen eru óvirk í brjóstavef músa sýnir vefurinn ekki fækkun á vefjasérhæfðum stofnfrumum eins og gerist í öllum vefjum með aldrinum.

Rannsóknin var framkvæmd í músum sem voru erfðabreyttar í mismunandi TIMP genum. Þegar músum með óvirkt TIMP1 var æxlað við mýs með óvirkt TIMP3 urðu til afkvæmi sem viðhéldu stofnfrumufjölda í brjóstakirtli mun lengur en foreldrar þeirra.

Viðhald á stofnfrumum eftir að þær fara sjálfar að eldast getur aukið líkurnar á krabbameinum. Það var þó ekki tilfellið í þessum tilteknu músum en þær fengu ekki frekar krabbamein í samanburði við foreldrar sína.

Hlutverk TIMP1 og TIMP3 er þó nokkuð vel skilgreint, en þessi prótín stjórna þroskun og viðhaldi vefja. Hugsanlega gegna þau einnig hlutverki við viðhald stofnfrumna, sem enn hefur ekki verið skilgreint til fulls.

Rannsóknin var unnin við Háskólann í Toronto og stjórnað af Rama Khokha.