Mynd: Fast Co Exist
Mynd: Fast Co Exist

Briskrabbamein, sem er þokkalega algengt krabbamein, getur verið ansi erfitt viðfangsefni fyrir heilbrigðisstarfsfólk og skjólstæðinga þeirra sem við það berjast. Að koma lyfjum að brisinu er ekki eins auðvelt og að beina lyfjum að öðrum líffærum þar sem fáar æðar liggja að því og líffærið er einnig þannig staðsett inní líkamanum að bæði lyfjagjafir og uppskurðir geta reynst snúnir.

Af þessum ástæðum hefur rannsóknarhópur við MIT unnið að því síðastliðin þrjú ár að hanna lítið tæki sem hægt er að koma fyrir við krabbameinið þar sem það seytir svo út krabbameinslyfjum.

Tækið er í raun þunn himna, sem er búin til úr fjölliðunni poly-lactic-co-glycolic-acid (PGLA). PGLA er efni sem hentar vel til slíkra nota þar sem það hefur ekki áhrif á lífvirkni lyfjanna og að auki brotnar það niður í líkamanum en veldur ekki skaða.

Lyfjum, sem nú þegar eru notuð við meðhöndlun briskrabbameins, er komið fyrir í himnunni og henni er síðan komið fyrir á æxlinu. Þetta er gert með lítilli slöngu svo til þarf einungis minniháttar aðgerð. Þar sem að himnan er sveigjanleg þá getur hún lagst utan á alls kyns æxli en þar seytir hún út lyfjum um leið og hún brotnar niður.

Prófanir sem gerðar voru í músum gáfu mjög góða raun af himnunni. Í öllum tilfellum þar sem mýs með briskrabbamein voru meðhöndlaðar með himnunni hætti krabbameinið annað hvort að vaxa eða frumur þess fóru að deyja. Að auki virtist himnan koma í veg fyrir að krabbameinið meinvarpaðist yfir í nærliggjandi vefi. Samanburðarhópurinn voru mýs sem fengu sömu lyf en þeim var sprautað í þær. Samanburðarhópurinn upplifði ekki sama bata.

Lyfin sem notuð verða í tækið eru nú þegar notuð til að meðhöndla briskrabbameinssjúklinga en þó á eftir að prófa himnuna sjálfa á mönnum. Það má því gera ráð fyrir að við þurfum að bíða í nokkur ár áður en þessi tækni mun teljast til hefðbundinna meðferðarúrræða.