led-lights

Dettur einhverjum í hug að ljós geti verið verkjastillandi? Við fyrstu sýn virðist það algjör firra að geta meðhöndlað erfiða verki með ljósi en þegar betur er að gáð gæti þessi aðferð verið mun betri en aðrar meðferðir sem reiða sig á verkjalyfjanotkun og fáanleg í náinni framtíð.

Vísindahópur við Washington University skeytti saman ópíat-viðtaka, sem örvast við bindingu ópíumskyldralyfja, og rodopsin, prótíns sem skynjar ljós í nethimnu augans. Með því að að skeyta þessum prótínum saman varð til viðtaki sem virkjast með ljósi, þ.e. þegar ljósið örvar rodopsinið þá virkjast ópíat viðtakinn og ferlið sem veldur verkjastillingunni fer af stað.

Ópíat-viðtakarnir eru margir og gegna mörgum og flóknum hlutverkum, svo til að byrja með eru þessar rannsóknir, sem framkvæmdar eru á músum eingunis til þess gerðar að skilja betur hlutverk viðtakana og virkni þeirra. En með tímanum verður mögulega hægt að skilgreina hlutverk þeirra nægilega vel svo hægt verði að ráðskast með virkni þeirra án þess að gefa lyf sem geta haft alvarlegar aukaverkanir á borð við lyfjafíkn.

Nú þegar hefur vísindahópurinn getað skilgreint hvaða ópiat-viðtaki það er sem miðlar verkjastillingu, en hann kallast Mu ópíat viðtaki. Áframhaldandi rannsóknir hópsins munu miða að því að gera fólki kleift að nýta ópíat viðtakana við verkjastillingu og jafnframt reyna að komast hjá því að gera fólk háð virkninni.

Hér má lesa fréttatilkynningu um rannsóknina og hér má nálgast greinina sjálfa.