53a113d8a980c_-_cosmo-lots-of-condoms-xl

Eftir margra ára vinnu lítur út fyrir að karlmenn fái loks aðgang að getnaðarvörn annarri en smokknum. Getnaðarvörn fyrir karla í sprautuformi hefur komist í gegnum prófanir á kanínum þar sem hún veitir vörn í að minnsta kosti eitt ár. Klínískar prófanir á mönnum hefjast á árinu og er búist við því að getnaðarvörnin komi á markað árið 2018 ef allt gengur vel.

Getnaðarvörnin ber heitið Vasagel og virkar þannig að hún stíflar sáðrásina með efni úr hlaupkenndu efni. Efnið er bæði sveigjanlegt og svo gegndræpt að það hleypir í gegnum sig vökva. Aftur á móti er það nógu þétt til að stærri einingar, líkt og sáðfrumur, komast ekki í gegn. Þannig kemur Vasagel í veg fyrir að sáðfrumur komist út við sáðlát og án þeirra verður engin þungun.

Auðvelt er að sprauta Vasagel í sáðrásina og er hægt að fjarlægja það á nokkuð einfaldan hátt, að sögn vísindamannanna, með því að skola því úr sáðrásinni með lausn sem inniheldur matarsóda.

Það er fyrirtækið Parsemus Foundation sem stendur á bakvið þróun á Vasagel en það einbeitir sér að því að skapa ódýrar lausnir sem ekki er einkaleyfi á. Það má því búast við því að ef Vasagel kemst á markað verði kostnaðurinn ekki mikill og er það eitt af markmiðum fyrirtækisins að Vasagel geti verið aðgengilegt öllum körlum.

Lengi hefur verið beðið eftir því að karlmenn hafi fleiri möguleika en smokkinn á því að koma í veg fyrir óæskilegar þunganir og vona vísindamenn að hér sé komið tækifæri til að breyta því.