26A6124E00000578-2994929-image-a-2_1426359895207_1024

Mörgum þykja undirhökur vera hvimleiður fylgifiskur öldrunar og vildu gjarnan losna við hana, nú eða þær. Nú gæti verið stutt í að það sé hægt án aðgerðar en Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna (FDA) hefur mælt með samþykki fyrir lyfi sem lætur undirhökuna hverfa, samkvæmt frétt ScienceAlert.

Nýja lyfið nefnist ATX-101 og inniheldur deoxýkólík sýru (e. deoxycholic acid) sem er sameind sem hjálpar til við niðurbrot á fitu. Lyfið virkar þannig að því er sprautað í fituna í undirhökunni og veldur því að frumuhimnur fitufrumnanna eyðileggjast með þeim afleiðingum að þær springa og eru brotnar niður í líkamanum.

Lyfið hefur verið rannsakað í 8 ár og hingað til hafa verið gerðar 19 klínískar rannsóknir á fleiri en 2.600 sjúklingum. Aukaverkanir eru fremur litlar en þar má helst nefna bólgu, sársauka og mar.

Fram að þessu hefur eina leiðin til að losna við undirhöku verið með skurðaðgerð. Kosturinn við ATX-101 er sá að meðferðin tekur einungis um fimm mínútur og undirhakan minnkar á tveimur til þremur dögum. Það má því ætla að margir verði ánægðir ef ATX-101 kemst á markað og nýta sér það í baráttunni við undirhökuna.

Skýrslu FDA um lyfið má lesa í heild sinni hér og fyrir og eftir myndir má sjá hér að ofan.