Mynd: HuffingtonPost

Hrörnunarsjúkdómar sem leggjast á heilann virðast vera erfið viðfangsefni þar sem ferlarnir sem eiga sér þar stað eru ekki nægilega vel skilgreindir. Hægt og bítandi hefur þó bæst í þekkingasafnið og um leið förum við að skilja hvernig hægt er að breyta því sem aflaga fer.

Þegar Alzheimer’s sjúkdómurinn herjar á taugakerfi einstaklings er í meginatriðum tvennt sem gerist, uppsöfnun á beta-amyloid prótínum og prótíni sem heitir tau. Við uppsöfnun þessara tveggja prótína í taugafrumum einstaklings verður til ástand sem hefur fengið nafnið Alzheimer’s sjúkdómurinn.

Hvers vegna þessi uppsöfnun á sér stað er ekki algjörlega skýrt og hvernig hægt er að snúa henni við hefur heldur ekki verið ljóst, þ.e.a.s. ekki fyrr en nú. Rannsóknarhópur við Temple University Health System prófaði nýtt lyf í músum með breytingar í geninu sem kóðar fyrir tau prótínið. Mýsnar þróa því með sér ástand sem líkist Alzheimer’s og árangurinn af lyfjagjöfinni var framar vonum.

Lyfið zileuton, sem reyndar er þekkt lyf við astma, hindrar myndun sameindar sem heitir leukotriene. Leukotriene er hluti af bólgusvari líkamans og hefur öfluga virkni í Alzheimer’s, þar sem sameindin reynir að vernda taugafrumurnar. Segja má að í ákefð sinni við að vernda taugavefinn fer leukotriene-miðlaða bólgusvarið að gera meiri skaða en gagn.

Í tilraun rannsóknarhópsins, gáfu þau músum með uppsafnað tau prótín, zileuton þegar þær voru orðnar 12 mánaða gamlar, sambærilegt við 60 ár hjá manninum. Eftir 16 vikna meðferð voru mýsnar látnar undirgangast minnispróf, sem þær stóðu sig vel í samanborið við mýs sem ekki fengu zileuton lyfið.

Til að sannreyna árangurinn vegna lyfsins var styrkur leukotriene sem og magn tau prótínsins metið í heilum músanna. Í ljós kom að leukotriene hafði minnkað um allt að 90%, samanborið við ómeðhöndlaðar mýs og tau prótínið um 50%.

Þetta er í fyrsta skiptið sem sýnt hefur verið fram á viðsnúnings breytinga sem tengja má við Alzheimer’s með lyfjagjöf. Hér er enn langt í land, þar sem lyfið hefur einungis verið prófað í músum með brenglað tau prótin. Enn á eftir að koma í ljós hvort lyfið hefur sömu áhrif í músamódelum sem einnig hafa brenglun í amyloid prótíninu.

Mýs hafa oft verið gagnrýndar sem módel í rannsóknum á sjúkdómum eins og Alzheimer’s þar sem þær endurspegla ekki nákvæmlega ferilinn sem á sér stað í mönnum. Við skulum því ekki fagna of snemma því fyrst þarf að sjá hvort sömu áhrif eigi sér stað í mannafrumum og svo í lifandi manneskju. Góðu fréttirnar eru samt þær að lyfið er nú þegar markaðsett sem lyf fyrir fólk (astmalyf) svo það styttir biðina eftir því umtalsvert, komi í ljós að það virkar vel á Alzheimer’s sjúklinga.