placebo

Lyfleysuáhrif eru þau áhrif sem lyf hefur án þess að innihalda virkt efni, í stuttu og einföldu máli eru lyfleysuáhrif tilkomin vegna þess að sá sem tekur lyfið heldur að lyfið virki. Af þessum völdum er alltaf, í góðum tilraunum þar sem áhrif lyfja, notast við að minnsta kosti tvo hópa þar af einn hóp sem fær ekki raunverulegt – lyfleysuhópur. Lyfleysuáhrif eru gríðarlega sterk og geta þau útskýrt töluverða virkni í lyfjum svo hví ekki að nýta þessa óútskýrðu virkni?

Það er einmitt það sem hópur við University of Alabama at Birmingham ætlar að gera. Til stendur að fá fólk sem hefur nýlokið við krabbameinsmeðferð í rannsókn sem á að skoða hvort lyfleysuáhrif getir haft áhrif á aukaverkanir krabbameinsmeðferðar á borð við þreytu og óútskýrða verki. Hópnum verður skipt í tvennt, annar hópurinn fær enga meðferð en hinn hópurinn fær lyfleysu. Það stendur ekki til að plata fólk til að halda að það sé að fá lyf, heldur verða þátttakendur upplýstir um að pillan sem þau fá er lyfleysa og innihaldi ekkert virkt efni sem hefur áhrif á líðan fólksins. Eftir meðferð verður líðan fólks metin og auk þess verða tekin munnvatnssýni til að leita að lífmerkjum (biomarkers) sem gætu útskýrt tilkomi lyfleysuáhrifa.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem slík tilraun er gerð. Árið 2010 birtu hópar frá Beth Israel Deaconess Medical Center og Harvard Medical School grein í PLoS ONE þar sem sýnt er fram á að lyfleysuáhrif koma fram hjá sjúklingum með iðrabólgu þrátt fyrir að þeir eru upplýstir um að þeir eru að taka lyfleysu. Sami hópur hefur birt svipaðar niðurstöður þar sem unnið var með sjúklinga sem þjáðust af þunglyndi og mígreni.

Rannsóknir sem þessar eru mikilvægar til að skilja betur hvað lyfleysuáhrif eru en að auki gefa þær til kynna að mögulega er lyfjanotkun meiri en hún þyrfti að vera.

Í framtíðinni verður kannski möguleiki að lækna óútskýrða verki eða veikindi með lyfleysu. Það verður spennandi að fylgjast með framþróun rannsóknarinnar við University of Alabama at Birmingham í framtíðinni.