Mynd: GABDIG
Mynd: GABDIG

Lyfleysuáhrif eða placebo-effect er það kallað þegar lyf með enga virkni, lyfleysa, hefur áhrif á sjúkdóm eða verk sem hrjáir einstakling. Lyfleysuáhrifin eru svo sterk og algeng að nauðsynlegt er t.d. að hafa lyfleysuhóp í tilraunum þar sem verið er að skoða áhrif nýrra lyfja. Áhrif lyfleysunnar getur meira að segja læknað fólk af verkjum, þrátt fyrir að einstaklingurinn hefur vitneskju um að um lyfleysu er að ræða.

Það er því augljóst að lyfleysuáhrifin passa illa inní hinn ferkantaða vísindaramma. Það er því ekki að undra að vísindamenn leggjast í að reyna að skilja hver þessi áhrif eru og hvaða ferli þau virkja í líkamanum.

Rannsóknarhópur við Northwestern University birtu nýlega grein í PLOS biology þar sem lyfleysuáhrifin voru tekin fyrir. Í rannsókninni voru einstaklingar annars vegar meðhöndlaður með verkjalyfjum eða lyfleysu, síðan var heilavirkni þeirra skoðuð með segulómun (functional MRI).

Í ljós kom að svæði í fremra heilablaði virkjast þegar verkjameðferð hefur tilskilin áhrif. Þetta svæði verður virkt hvort sem einstaklingurinn fær verkjastillandi lyf eða lyfleysu, þ.e. ef verkjastillingin kemur fram. Ekki nóg með að svæðið virkjast í nánast öllum einstaklingum sem upplifðu verkjastillingu heldur var einnig hægt að mæla hversu mikil verkjastillingin var.

Með þessum uppgötvunum opnast möguleiki á því að skilgreina hvers konar meðferð hver einstaklingur þarf á að halda við langvarandi verkjum. Lyfleysur geta í sumum tilfellum komið sér vel til að auka áhrif verkjastillingarinnar. Áframhaldandi rannsóknir munu vonandi leiða í ljós hvernig lyfleysa og virk lyf vinna saman.