Mynd: Matthew Klein
Mynd: Matthew Klein

Tíðni ofnæmis af ýmsum toga fer vaxandi í heiminum og er það sérstakt áhyggjuefni þegar kemur að ofnæmi sem dregið getur fólk til dauða, líkt og jarðhnetuofnæmi getur gert. Nú kann að vera að leið sé fundin til að minnka líkurnar á því að börn þrói það með sér.

Vísindamenn við Kings College í London birtu í fyrra niðurstöður rannsóknar þar sem 300 börnum var gefið jarðhnetuþykkni með reglulegu millibili fyrir 11 mánaða aldur. 300 börn í samanburðarhópi fengu aftur á móti ekki matvæli sem innihéldu jarðhnetur á tímabilinu. Börnin í rannsókninni voru öll í áhættuhópi fyrir ofnæmi, það er þau höfðu áður fengið exem eða ofnæmi fyrir eggjum.

Í ljós kom að með því að gefa börnunum jarðhnetuþykkni minnkuðu líkurnar á því að þau þróuðu með sér ofnæmi fyrir jarðhnetum fyrir fimm ára aldur um meira en 80%. 17% barnanna í viðmiðunarhópnum fengu jarðhnetuofnæmi fyrir fimm ára aldur en aðeins 3,2% barnanna sem fengu reglulega jarðhnetuþykkni.

Til þess að sannreyna hvort áhrifin séu langvarandi hafa vísindamennirnir fylgst með 550 af börnunum sem tóku þátt í rannsókninni í eitt ár í viðbót. Í þetta sinn fékk ekkert barnanna jarðhnetur. Í ljós kom að tíðni jarðhnetuofnæmis jókst ekki á tímabilinu en þrjú börn í báðum hópum þróðuðu með sér einhverskonar ofnæmi.

Þessar nýju niðurstöður eru merkilegar fyrir þær sakir að þær sýna fram á að áhrif þess að fá jarðhnetur snemma á lífsleiðinni eru langvarandi.

Gideon Lack, sem stýrði rannsókninni, sagði í samtali við BBC að hann trúi því að “hræðsla við fæðuofnæmi sé orðin spádómur sem uppfylli sig sjálfur, vegna þess að maturinn er útilokaður úr mataræðinu sem leiðir til þess að börnum tekst ekki að mynda þol”. Lack mælir með því að foreldrar barna sem eru í áhættuhópi fyrir ofnæmi ráðfæri sig við lækna áður en þeim eru gefin matvæli sem innihalda jarðhnetur en hvetur foreldra jafnframt til þess að hræðast það ekki að leyfa börnunum að prófa að borða þær.

Næstu skref rannsóknarhópsins eru að kanna hvort magn jarðhnetuþykknis skiptir máli í þessu samhengi en ljós er að niðurstöðurnar gætu hjálpað til við að koma í veg fyrir jarðhnetuofnæmi hjá börnum í framtíðinni.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í New England Journal of Medicine.