Mynd: drbillsukala.com
Mynd: Dr Bill Sukala

Vísindamenn hafa lengi vitað að tilfinningaleg streita getur veikt hjartað og er það stundum nefnt ástarsorgarheilkennið. Fram að þessu hefur þó ekki verið vitað hvort áhrifanna gæti einnig á takt hjartans.

Danskir vísindamenn við háskólann í Aarhus hafa nú sýnt fram á að einstaklingar sem hafa misst maka eru líklegri en aðrir að þróa með sér hjartsláttartruflun sem nefnist gáttatif og getur leitt til heilablóðfalls eða hjartaáfalls. Niðurstöðurnar voru birtar í tímaritinu Open Heart í vikunni.

Gáttatif er algengasta hjartsláttartruflunin í hinum vestræna heimi og lýsir sér þannig að efri hólf hjartans (gáttir), sem eru tvö, slá hratt og úr takti við neðri hólf hjartans. Þetta leiðir til sláttarónota, mæði og þróttleysis.

Í rannsóknni skoðuðu vísindamennirnir gögn sem safnað var á árunum 1995 til 2014 frá yfir 88.000 sjúklingum sem misst höfðu maka og höfðu greinst með gáttatif. Auk þess voru 10 viðmiðunareinstaklingar fyrir hvern sjúkling og voru því gögn frá rúmlega 886.000 sjúklingum notuð í rannsókninni.

Í ljós kom að þeir sjúklingar sem misst höfðu maka sinn voru 41% líklegri til að vera greindir með gáttatif en aðrir en áhættan fór minnkandi eftir því sem að leið á árið eftir missinn. Ári seinna var áhættan svipuð og hjá þeim sem ekki höfðu misst maka. Áhættan var sérstaklega mikil í sjúklingum yfir 60 ára sem misst höfðu maka nokkuð skyndilega.

Niðurstöðurnar ber þó að túlka varlega því þrátt fyrir stórt úrtak er erfitt að segja til um að það hafi í raun verið dauði maka sem varð til þess að eftirlifandi maka fékk gáttatif. Þó svo að stjórnað hafi verið fyrir öðrum þáttum er ekki hægt að útiloka að eitthvað annað spili þarna inn í en gögn um þætti á borð við lífstíl, hreyfingu og fjölskyldusögu um gáttatif voru ekki til staðar. Niðurstöðurnar kalla engu að síður á að þessi tengsl séu könnuð nánar og má búast við því að það verði gert í framtíðinni.