Enn og aftur dúkkar sýklalyfjaónæmið upp hjá okkur og í þetta sinn fréttir sem gefa ástæðu til bjartsýni. Fyrr í vikunni var birt grein í tímaritinu Nature Microbiology þar sem uppgötvun vísindahóps við The Rockefeller University á nýju sýklalyfi er sett fram.

Hópurinn notaði jarðvegssýni til að leita eftir genum sem gætu kóðað fyrir sýklalyfjum. Til að auðvelda sér leitina nýtti hópurinn sér þekkingu sína á svokölluðum kalk-háðum sýklalyfjum. Slík sýklalyf eru eins og nafnið gefur til kynna háð því að kalk sé í umhverfi bakteríunnar svo það virki.

Hópurinn nýtti sér þess vegna þekktar raðir sem tilheyra genum sem gera sýklalyfin kalk-háð til að leita að erfðaefnisbútum úr jarðvegssýnunum og fiska þannig út möguleg sýklalyfjagen. Þetta er framkvæmt á þann hátt að jarðvegssýnum er safnað og erfðaefni allra lífvera sem þar búa er einangrað. Síðan er allt erfðaefnið raðgreint og eftir það leitað eftir þessum tilteknu þekktu röðum.

Næsta skref var svo að skoða erfðaefnið í kring um kalk-háðu bútana og meta hvort um var að ræða mögulegt gen sem kóðar fyrir sýklalyfjum. Ef talið var líklegt að þarna væri eitthvað bitastætt á ferðinni, þá var erfðaefninu komið fyrir inní tilraunalífverunni E.coli sem bjó til afurð gensins. Efninu safnað og einangrað áður en það var prófað með tilliti til sýklalyfjavirkni.

Ástæða þess að hópuinn leitaði að nýju sýklalyfi í jarðvegssýnum er sú að þar er mikið af óþekktum örverum sem eru líklegar til að bera með sér einhvers konar varnir gegn öðrum örveru, sýklalyf eru jú í flestum tilfellum upprunnar í bakteríum eða sveppum.

Fyrsti ávinningur þessarar leitar hefur nú litið dagsins ljós – malicidin. Nýja sýklalyfið hefur verið prófað á Staphylococcus aureus stofni sem geymir sýklalyfjaónæmi. Niðurstöðurnar voru afgerandi, bakterían steinlá fyrir þessu nýja lyfi.

Þrátt fyrir þessar gleðilegu niðurstöður er þó enn langt í land. Þróun og prófun nýrra lyfja tekur því miður nokkur ár í framkvæmd. Allt er þetta þó gert til að auka öryggi okkar neytenda og á meðan við bíðum er aldrei að vita nema Rockefeller hópurinn og aðrir hópar sem stunda svipaðar rannsóknir, kynni enn fleiri sýklalyf til sögunnar.