marijuana-leaf

Marijúana er sennilega best þekkt sem ólöglegur vímugjafi en þrátt fyrir það hefur það verið notað í læknisfræðilegum tilgangi, ólöglega og löglega í fjölda ára. Best þekktu dæmin eru verkja- og ógleðibælandi áhrif þeirra á sjúklinga í krabbameinsmeðferð. En þar sem um ólöglegt efni er að ræða hefur það lítið verið rannsakað þannig að óyggjandi vísbendingar liggi fyrir um ágæti efnisins. Það virðist þó vera að breytast þar sem rannsóknarhópur við New York University hefur skoðað virkni efnisins á flogaveika.

213 manns á öllum aldri með flogaveiki voru meðhöndluð með cannabidiol, sem var einangrað úr marijúana, efnið veldur þó ekki vímu. Allir einstaklingarnir sem tóku þátt voru með alvarlega flogaveiki sem svaraði engri annarri meðferð. Í þessari rannsókn var enginn lyfleysuhópur þar sem tilgangur rannsóknarinnar var að prófa hvort lyfið hefði aukaverkanir og hvort óhætt væri að taka það inn.

Um 54% þátttakenda, sem kláruðu meðferðina, fengu færri flog eftir að meðferð hófst. Hins vegar upplifðu 10% þátttakenda aukaverkanir á borð við niðurgang, þreytu og minni matarlist. 6% þurftu að hætta þátttöku vegna aukaverkana.

Þó rannsóknin sé gerð á litlu þýði og enginn viðmiðunarhópur er tekinn inní myndina gefa niðurstöðurnar samt sem áður vísbendingar um að hægt sé að marijúana til meðhöndlunar á flogaveiki í einhverjum tilfellum. Vonandi að þessum rannsóknum verði framhaldið og þá hægt að skilgreina nákvæmlega hver virkni efnisins er.

Niðurstöður rannsóknarinnar verða kynntar á 67. ársfundi American Academy of Neurology sem haldið verður í Washinton DC. 18.-25 apríl.