Mynd: Health Ambition
Mynd: Health Ambition

Matarræði okkar hefur gríðarleg áhrif á heilsuna, þá aðallega ef við borðum mikið af mjög óhollri fæðu. Fólk sem til dæmis innbyrðir of mikið af óhollum mat, sér í lagi sykri, eru í meiri hættu á að þróa með sér offitu og sykursýki týpu 2. Slík sykursýki hefur einnig verið kölluð áunnin sykursýki vegna þess að einstaklingar fæðast ekki með þetta tiltekna ástand heldur getur það komið til á efri árum.

Rannsókn, sem gerð var á músum við Helmholtz Zentrum München sýnir að matarræði, sem leiðir til sykursýki eða offitu getur haft áhrif á komandi kynslóðir. Augljós ástæða gæti verið að móðir borðar óhollan mat á meðgöngu sem hefur áhrif á fóstrið, en það var ekki tilfellið í þessari rannsókn sem birt var í Nature Genetics.

Í rannsókninni var unnið með mýs sem sýndu einkenni offitu og sykursýki, sökum ofáts. Kynfrumur úr þessum músum voru notaðar til að mynda ný afkvæmi sem heilbrigð mús gekk með. Með þessu móti var þáttur móður á meðgöngu útilokaður frá því að hafa áhrif. Þegar afkvæmin fæddust reyndust þau hafa tilhneigingu til að þróa með sér offitu og sykursýki týpu 2.

Skýringar á þessu er a.ö.l. að leita í erfðaefninu, þó ekki DNA röðinni sjálfri þar sem líklega er ekki um stökkbreytingu að ræða, heldur í því sem kallað er utangenaerfðir. Utangenaerfðir eru merkingar á erfðaefninu sem hafa áhrif á tjáningu þess. Við myndun okfrumu eru utangenaerfðir yfirleitt þurrkaðar út og nýjar merkingar koma til eftir þvi sem fósturþroska framvindur. Á þessu eru þó undantekningar og þessar niðurstöður rannsóknarhópsins við Helmholtz Zentrum München benda til þess að undantekningarnar eru sennilega mun fleiri en við höfðum gert okkur grein fyrir.