fast-food

Matarræði okkar hefur gríðarleg áhrif á vellíðan okkar og heilsu. Ekki bara þá sem þjást af ofnæmi eða óþoli heldur skiptir það alla máli að borða fjölbreytt og hollt fæði til að líkaminn hafi sem besta virkni. Löngum hafa sjálfskipaðir sérfræðingar reynt að selja fólki hugmyndir um hvernig ákveðin samsetning matarræðisins getur læknað sjúkdóma á borð við krabbamein.

Slíkar aðferðir hafa hingað til ekki verið studdar af neinum rannsóknum en vísindahópar um allan heim hafa þó brennandi áhuga á að skilja hvort og hvernig er hægt að hafa áhrif á frumur líkamans með fæðunni. Ein slík rannsókn var nýlega birt í Nature. En í henni var skoðað hvort ákveðnar amínósýrur gætu haft áhrif á vöxt krabbameinsfrumna.

Rannsóknin var unnin við Cancer Research UK Beatson Institute og the University of Glasgow, en í henni var notast við músamódel til að skoða áhrif amínósýranna glysín og serín. Þessar amínósýrur, ásamt öðrum, eru oft kallaðar „non-essential amino acids“ eða amínósýrur sem ekki eru lífsnauðsynlegar. Heilbrigðar frumur hafa nefnilega eiginleikann til að búa þessar amínósýrur til. Sumar krabbameinsfrumur hins vegar tapa þeim eiginleika og treysta því á að fá þær úr fæðu.

Þegar mýs með krabbamein í eitlum eða meltingarvegi fengu fæði sem skorti þessar tvær amínósýrur minnkaði vöxtur æxlanna, vegna þess að krabbameinsfrumurnar höfðu ekki lengur aðgang að þessum ómissandi amínósýrum. Hins vegar þegar mýs með t.d. briskrabbamein voru sett á sama fæði sáust ekki sömu áhrif.

Það verður þó forvitnilegt að sjá hvort sömu áhrif verði til staðar í mannafrumum. En það eru einmitt næstu skref að gera samskonar rannsóknir í mönnum, til að hægt verði að skera úr um hvort slíkar aðferðir geti hentað til krabbameinsmeðferða.

Rétt er að taka fram að við mælum alls ekki með því að fólk reyni að sneiða hjá ákveðnum amínósýrum. Amínósýrur eru byggingareiningar prótína, þegar við meltum prótín þá brjótum við það niður í amínósýrur og á því formi tökum við næringuna upp í líkamann. Það er því ekki bara óráðlegt heldur einnig einstaklega flókið fyrir almenning að borða fæði sem ekki inniheldur ákveðnar amínósýrur.