sn-fasting

Öldrun er ekki slæmur hlutur en henni fylgja óneitanlega leiðinlegir fylgikvillar eins og aukin hætta á sjúkdómum á borð við sykursýki og krabbamein. Að sama skapi getur offituástand ýtt undir þessa þætti líka. Nú gefur ný rannsókn sem framkvæmd var við University of Southern California til kynna að með réttu matarræði er hægt að koma í veg fyrir hvort tveggja og þar af leiðandi minnka hættuna á þróun ýmissa sjúkdóma.

Rannsóknin náði til þriggja lífvera, gersvepps, músa og manna. Í öllum tilfellum sýndi matarræðið merki um góð áhrif. Meðal þess sem hópurinn leitaði eftir voru lífmerki (biomarkers) sem hafa verið tengd við auknar líkur á krabbameinsmyndunn og sykursýki. Í músum hafði matarræðið víðtæk jákvæð áhrif á meðal annars þyngd, krabbameinsmyndun, ónæmiskerfið og beinþynningu. Í gömlum músum voru einnig vísbendingar um endurnýjun í taugakerfinu.

Þegar matarræðið var svo prófað á lítinn hóp manna komu svipaðar niðurstöður í ljós. Þetta ákveðna matarræði hafði ekki bara jákvæð áhrif heldur einnig mjög víðtæk. Frekari rannsóknir í stærri hópi á þó eftir að framkvæma til að sjá hversu mikil marktæk áhrif eru en fyrstu prófanir lofa þar góðu.

Svo hvert er töfra matarræðið? Lykillinn er að fasta í nokkra daga á mánuði. Í rannsókninni var fólk beðið um að minnka inntöku sína á hitaeiningum samfellt í fimm daga í mánuði. Hina dagana voru engin takmörk sett varðandi matarræðið og fólk var ekki beðið um að breyta sínum venjulegu matarvenjum. Þessa fimm daga sem hitaeiningum var fækkað fékk svo fólk sérstaka samsetningu af prótínum, kolvetnum og fitu. Eftir þrjá mánuði þar sem þessum leiðbeiningum var fylgt voru svo framkvæmdar mælingar sem leiddu í ljós að ýmis lífmerki bentu til að áhrif matarræðisins væru hin sömu og sáust í bæði gersvepp og músum.

Eins og áður segir á enn eftir að staðfesta niðurstöðurnar í stærri hóp og fólki er ekki ráðlagt að svelta sig í fimm daga í mánuði. Það er mikilvægt að þó inntaka hitaeininga sé minnkuð þá er hún ekki stöðvuð og rétt er að velja hitaeiningarnar vel. Áður en haldið er útí svona inngrip væri líka ekki óvitlaust að ráðfæra sig við lækni, sérstaklega þeir sem glíma við einhverja líkamlega kvilla. Eftir eitt til tvö ár munum við svo vonandi sjá frekari niðurstöður frá rannsóknarhópum.