insulin_receptor_web

Skref í átt að lækningu við sykursýki, fitulifur og skorpulifur voru birt í Science 26. febrúar síðastliðinn.

Í sykursýki týpu 2 hafa frumur líkamans ekki lengur viðtaka til að bindast insúlíni, sem flytur glúkósa úr blóðrásinni og inní frumurnar. Sykursýki týpa 2 er einnig stundum kölluð áunnin sykursýki og er hún algengari hjá fólki sem þjáist af offitu. Offita og sykursýki týpa 2 getur einnig orsakað fitulifur, en það er þegar fita safnast fyrir í lifrinni. Fitulifur getur á seinni stigum þróast útí skorpulifur, sem er næsta stig við lifrarbilun. Í dag felst meðferð við báðum þessum kvillum aðallega í því að halda sjúkdómseinkennum niðri en ekki hefur enn fundist leið til að lækna þá.

Vísindahópur við Yale vonast til að hafa fundið leið til að snúa ferlinu sem veldur sjúkdómunum við. Efnið sem var notað í þessari rannsókn er 70 ára gamalt megrunarlyf, það er 2,4-dinitrophenol (DNP) sem miðar á prótónugöng í hvatbera.

Við rannsóknina var notast við mýs með fitulifur eða sykursýki týpu 2. DNP hefur í of miklum mæli eitrunaráhrif og því hefur það ekki verið notað sem lyf þó virkni þess hafi verið þekkt. Í rannsókninni sem stjórnað var af Gerald I. Shulman, notaði hópurinn efni sem kallast CRMP, en CRMP er bundið DNP. Þegar DNP er bundið er hægt að taka það inn í töfluformi og lítið magn af lyfinu fer útí blóðrásina í einu. Þannig var hægt að gefa músunum einn skammt af lyfinu á dag og lyfið seytlaði inní kerfið á löngum tíma.

Við þessa lyfjagjöf sáust jákvæðar breytingar á fitulifur, glúskósi í blóði lækkaði ásamt insúlini og þríglýseríðum. Næsta skref rannóknarhópsins er að fara í klínískar prófanir, þ.e. að mæla áhrif CRMP í mönnum. Vonandi verðum við innan skammt komin með lyf sem getur bætt lífsgæði þeirra sem berjast við sykursýki týpu 2 og fitulifur.

Fréttatilkynningu um málið má nálgast hér.