ztzc2qb5sa3ovbxysoex

Það er ekki oft sem rannsóknir eru stöðvaðar því niðurstöður þeirra liggja fyrir fyrr en áætlað var. Það er þó einmitt það sem gerðist þegar U.S. National Institute of Allergy and Infectious Diseases (NIAID) rannsakaði mismunandi leiðir til að meðhöndla HIV veiruna.

Rannsóknin var framkvæmd í 35 löndum og voru þátttakendur 4.685 HIV smitaðir einstaklingar. Ætlunin var að kanna hvenær best sé að hefja meðhöndlun á sjúkdómnum en lengi hefur verið deilt um það hvort eigi að byrja strax við greiningu eða bíða þar til einkenni gera vart við sig.

Af niðurstöðunum var ljóst að það að hefja meðferð um leið og HIV hefur verið greint helmingaði líkurnar á því að sjúkdómseinkenni gerðu vart við sig og á dauðsföllum af völdum hans.

Misjafnt er eftir löndum hvernig farið er að þegar HIV greinist en ýmist er strax farið í að meðhöndla veiruna eða beðið þar til áhrifa á ónæmiskerfið er farið að gæta. Ástæður að baki því að bíða með meðhöndlun hafa helst verið áhyggjur af áhrifum langtímanotkunar lyfja geng HIV veirunni.

Þetta er í fyrsta skipti sem að sýnt er fram á að betra sé að byrja að meðhöndla HIV strax við greiningu. Líklegt þykir að þessar niðurstöður muni hafa mikil áhrif á það hvernig HIV er meðhöndlað í þeim löndum, líkt og Bretlandi, þar sem meðhöndlun hefur ekki verið hafin fyrr en veiran er farin að hafa áhrif á ónæmiskerfi sjúklingins.