Mynd: Pain Relief Group
Mynd: Pain Relief Group

Mígreni er slæmur höfuðverkur sem erfitt er að losna við. Talið er að milli 10 og 20% mannkyns þjáist af mígreni í heiminum og slæmur höfuðverkur sem flokkast ekki endilega sem mígreni er enn algengari.

Fáar haldbærar skýringar hafa fengist á þessu fyrirbæri sem kemur og fer hjá þeim sem við það kljást. Margir hafa með reynslunni fundið að ákveðnir þættir í fæðu eða aðrir umhverfisþættir geti komið höfuðverkjakostum af stað og reyna því að forðast þessa tilteknu þætti.

Nýlega voru kynntar niðurstöður rannsóknar á ráðstefnu um höfuð- og hálsáverka sem gefur vísbendingar um að ástæða höfuðverkjanna sé hugsanlega að rekja til vítamínskorts og gætu rannsóknir sem þessar opnað á betri meðferð við mígreni.

Í rannsókninni voru upplýsingar úr gagnagrunni Cincinnati Children’s Headache Center um sjúklinga með mígreni skoðaðar til að meta algengi vítamínskorts hjá þeim sem þjást af mígreni. Í ljós kom að þeir sjúklingar sem þjást af mígreni eru líklegri en aðrir til að vera undir viðmiðunarmörkum hvað varðar D vítamín, ríbóflavín, fólat og kóensím Q10 í blóði.

Þessar niðurstöður eru í samræmi við aðrar rannsóknir þar sem tengsl hafa fundist milli vítamínskorts og höfuðverkja. Hins vegar hefur enn ekki verið prófað að meðhöndla mígreni með vítamíngjöf, heldur hefur sú meðferð yfirleitt verið notuð samhliða hefðbundnum lyfjagjöfum sem eiga að koma í veg fyrir mígreni. Næstu skref væru því að skoða hvort einhver áhrif fengjust af því að auka einungis vítamíngjöf án lyfjagjafar gegn mígreni.