Mynd: CDC
Mynd: CDC

Alþjóðaheilbrigðisstofnun varar við því að mislingar breiðast hratt um Evrópu vegna lækkaðrar bólusetningartíðni í heimsálfunni.

Ekki er útlit fyrir að staðan batni á næstunni og sýna bráðabirgðargögn fyrir febrúarmánuð að tilfellum fer fjölgandi. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hvetur því til þess að lönd þar sem sjúkdómurinn er landlægur grípi til aðgerða til að auka tíðni bólusetninga og takmarka útbreiðslu sjúkdómsins.

Flest tilfelli hafa fram að þessu greinst á Ítalíu og í Rúmeníu eða rúmlega 200 tilfelli á Ítalíu og rúmlega 3.400 tilfelli í Rúmeníu á árinu. Í Rúmeníu hafa dauðsföllin síðan í janúar 2016 verið í það minnst 17.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin mælir með því að að lágmarki 95% íbúa séu bólusettir gegn mislingum til að fullnægjandi hjarðónæmi sé til staðar. Erfitt hefur reynst fyrir sum lönd að ná því hlutfalli og hafa flest tilfelli mislinga greinst í þeim löndum þar sem bólusetningatíðni hefur fallið og sjúkdómurinn er landlægur svo sem í Frakklandi, Þýskalandi, Ítalíu, Póllandi, Rúmeníu, Sviss og Úkraínu.

Á Íslandi er almennt bólusett gegn mislingum við 18 mánaða aldur og er sjúkdómurinn ekki landlægur. Ekki er búist við því að sjúkdómurinn geti valdið faraldri hér á landi vegna hárrar bólusetningartíðni í landinu.