Mynd: SPL/BBC

Á fyrstu sex mánuðum ársins hafa 41 þúsund einstaklingar smitast af mislingum í Evrópu. Þar af hafa 37 látist. Tilfellin hafa ekki verið fleiri síðan á tíunda áratugnum.

Fjöldi mislingatilfella tók stórt stökk í fyrra þegar skráð tilvik voru 23.927 talsins. Árið 2016 voru tilfellin 5.273.

Talið er að rekja megi fjölgun tilfella til þess að dregið hefur úr bólusetningum í heimsálfunni. Til að koma í veg fyrir útbreiðslu mislinga er talið að 95% einstaklinga í þýði verði að vera ónæmir. Í Evrópu hefur talan fallið í 90% og fá lönd í Evrópu náðu 95% bólusetningatíðni fyrir ung börn í fyrra.

Flest mislingatilfelli greindust í Serbíu, Úkraínu, Georgíu og á Grikklandi.

Hvað eru mislingar?

Mislingar eru smitsjúkdómur af völdum mislingaveirunnar sem berst á milli fólks með dropum sem myndast þegar við hóstum eða hnerrum. Einkennin eru meðal annars kvefeinkenni, hiti, þreyta, roði í augum og rauð útbrot. Einkenni standa almennt yfir í 7-10 daga.

Þó flestir jafni sig af sjúkdómnum getur hann dregið fólk til dauða. Auk þess getur hann leitt til annarra sjúkdóma á borð við heilahimnubólgu, heilabólgu og lugnabólgu.