Alzheimer's

Alzheimer’s er hrörnunarsjúkdómur sem veldur minnistapi og persónuleikabreytingum. Orsakir sjúkdómsins eru ekki að fullu þekktar en rannsóknarhópar um allan heim leggja sig alla fram um að breyta þeirri staðreynd, því meira sem við vitum um sjúkdóminn þeim mun meira getum við gert til að lækna hann eða sporna við honum. Fólk sem fær af einhverjum orsökum alvarlega höfuðáverka er í aukinni áhættu á að þróa með sér Alzheimer’s seinna á lífsleiðinni, ný rannsókn sem birt var í Nature á dögunum, skýrir hvers vegna.

Í rannsókninni sem unnin er við Harward Medical School sýnir rannsóknarhópurinn fram á að höfuðáverkar geta leitt til myndunar á gölluðu prótíni í heila sem hefur verið tengt við Alzheimer’s myndun. Þessar aukaverkanir geta komið fram allt að 12 klukkustundum eftir slys. Prótínið sem um ræðir heitir Tau prótín en það er mikilvægt fyrir rétta virkni taugafrumna í heila.

Það sem höfuðáverkar og Alzheimer’s sjúkdómurinn eiga sameiginlegt er að í heila þessara einstaklinga myndast gölluð eintök af Tau. Í heilbrigðum einstaklingi er til staðar útgáfa af Tau sem kallast trans-P-tau. Við höfuðáverka og í Alzheimer’s sjúklingum er til staðar útgáfa af prótíninu sem kallast cis-P-tau. Þar sem þessi gallaða útgáfa af Tau myndast eftir höfuðáverka er mjög líklegt að það sé ástæðan fyrir auknum líkum á Alzheimer’s í kjölfar höfuðáverka. En uppsöfnun á þessu prótíni í heila getur valdið óafturkræfum heilaskaða.

Til að sporna við myndun gallaða eintaksins þróaði vísindahópurinn mótefni sértækt gegn cis-P-tau. Þegar mótefnið var notað á bæði frumuræktir og í músamódelum hafði það stórvægileg áhrif á magn cis-P-tau og er því líklegt að hægt verið að notast við mótefni til að koma í veg fyrir heilaskaða og jafnvel verður einnig möguleiki að nota mótefnið fyrirbyggjandi á fyrstu stigum Alzheimer’s.