Mynd: Hamilton
Mynd: Hamilton

Það er tiltölulega stutt síðan vísindagrein var birt í Cell Stem Cell þar sem því er lýst hvernig húðfrumu úr mús var breytt í sæðisfrumu. Þóttu þessar niðurstöður sérstaklega áhugaverða í tengslum við meðferð manna við ófrjósemi. Nú hefur japanskur rannsóknarhópur birt svipaðar niðurstöður þar sem lokaafurðin er ekki bara eggfrumur heldur lifandi, heilbrigðir músa-ungar.

Í greininni sem birtist í Nature eru húðfrumur músa settar í gegnum öfugt þroskunarferli til að fá stofnfrumulíka eiginleika. Þegar frumurnar hafa náð því stigi eru þær svo leiddar í gegnum þroskaferlið til að verða kímlínufrumur, eða eggfrumur. Eggfrumurnar eru svo fjóvgaðar og komið fyrir í legi fullorðinna músa til að sjá hvort úr þeim geti þroskast heilbrigðar mýs.

Þó langflestir fósturvísarnir hafi ekki náð að þroskast í músa-unga þá fengust 12 heilbrigðir ungar útúr tilrauninni. Hundruðir eggja voru frjóvguð en fósturþroski misfórst á hinum ýmsu stigum, en ástæðan fyrir því er óþekkt.

Rannsóknir sem þessar vekja upp margar siðferðilegar spurningar. Meðferð sem þessi gæti reynst mörgum pörum björgun, þ.e. ef svipaðar aðferðir væri hægt að nota í mönnum. Áður en við komumst á þann stað að veita fólki meðferð með þessum hætti er þó mikilvægt að vísindasamfélagið eigi samtal við samfélagið í heild um þá siðferðilegu ábyrgð sem óhjákvæmlega fylgir því að geta búið til líf á tilraunastofu.