sneezing-slo_1024

Vísindamönnum detta ótrúlegustu hlutir í hug og er mynbandið hér að neðan gott dæmi um það. Myndbandið (sem er ekkert sérstaklega geðslegt) sýnir hnerra sem er búið að hægja á svo greinilega má sjá hvað á sér stað þegar við hnerrum.

Það voru vísindamenn við MIT í Bandaríkjunum sem útbjuggu myndbandið í þeim tilgangi að skilja betur hvað gerist þegar við hnerrum. En til hvers? Jú, margir smitsjúkdómar smitast með hnerra (meðal annars mislingar, inflúensa og SARS) og mikilvægt er að skilja hvernig smit á sér stað til þess að hægt sé að hanna meðferðir og forvarnir gegn sjúkdómum.

Ekki er enn vitað nákvæmlega hversu langt hnerri getur dreifst en rannsóknarhópurinn staðfesti í rannsókn sinni að sýklar dreifast með hnerra bæði í stórum dropum og örsmáum dropum sem geta hangið í loftinu í nokkrar mínútur og jafnvel ferðast um rými.

Fyrsti höfundur greinarinnar, Lydia Bourouiba, sagði í fréttatilkynningu um rannsóknina að vanþekking okkar á hnerrum séu stór blindblettur þegar kemur að hönnun á forvörnum gegn ýmsum sjúkdómum. Næstu skref rannsóknarhópsins eru að kanna hnerra nánar með því að skoða hvernig slím veikra einstaklinga dreifist þegar það henrrar.