
Síðastliðin ár hafa birst rannsóknir m.a. frá Bandaríkjunum, Ástralíu og Kína sem gefa til kynna að börn sem stunda útiveru eru í minni hættu á að mælast nærsýn en þau börn sem eyða meiri tíma innandyra. En þó tengslin virðast vera nokkuð skýr er orsökin ekki endilega þekkt, eða þangað til núna. Í rannsókn þar sem fylgst var með frumum í sjónu músa kemur möguleg orsök í ljós.
Rannsóknin var unnin við Northwestern University í Chicago í Bandaríkjunum. Í rannsókninni er fylgst með virkni frumna í sjónu músa þegar sjónan er örvuð með mismuandi ljósi. Ljósgeislar innandyra virðast vera meira á rauða/græna rófinu en það ljós sem við upplifum utandyra. Þegar ljós á rauða/græna rófinu er notað til að örva sjónuna virkjast frumur sem vísindahópurinn telur vera hlekkurinn sem leiðir til nærsýni.
Þessar frumur hafa áhrif á vöxt augans meðan líkaminn er að þroskast. Þegar inniljós virkjar frumurnar senda þær boð til annarra frumna í auganu um að vaxa. Líkur eru á að vöxtur augans verði því of mikill þegar innivera er mikil. Þessi ofvöxtur augans, þó hann sé ekki endilega mjög mikill, leiðir til þess að ljósið hittir ekki á réttan stað á augasteininum eða það sem kallast einnig nærsýni.
Enn sem komið er hefur þessi virkni ekki verið mæld í mannafrumum. Ef samsvarandi niðurstöður sjást í sjónu manna eru líkur á að hægt verði að hafa áhrif á nærsýni með því að reyna að bæla virkni frumnanna. Auðvitað getum við líka haft áhrif á líkur þess að börnin okkar verða nærsýn með því að senda þau oftar út að leika, þó það virðist oft vera þrautin þyngri á tímum snjalltækja.