
Ný tækni er sögð geta leitt til nýmyndunar frumnar í líkama sjúklings utan frá. Tæknin hefur fram að þessu reynst vel í prófunum á músum og svínum en hefur ekki verið prófuð á mönnum.
Það eru vísindamenn við Ohio State University sem eiga heiðurinn af tækninni sem kallast THT (Tissue Nanostransfection). THT byggir á því að setja kubb sem inniheldur nanótækni á húð sjúklingsins og getur þaðan breytt einni frumugerð í aðra með rafspennubreytingu.
Tæknin hefur þegar verið prófuð á músum og svínum með góðum árangri. Samkvæmt rannsóknarhópnum virkaði tæknin í 98% tilfella. Rannsóknarhópurinn var að eigin sögn hissa á því hversu vel tæknin virkaði en aðeins þarf að leggja kubbinn á skaddaða svæðið í nokkrar sekúndur til að endurforritun á frumum hefjist.
Ef tæknin virkar líkt og vonast er til í mönnum er ljóst að hún gæti haft mikið notagildi í sjúklingum til dæmis í enduruppbyggingu á æðum og taugafrumum, til dæmis eftir heilablóðfall.
Í myndbandinu hér að neðan er farið yfir hvernig tæknin virkar og hvaða notagildi hún gæti haft í framtíðinni.
Greint var frá tækninni í tímaritinu Nature Nanotechnology.