Mynd: Flickr/umpcportal.com
Mynd: Flickr/umpcportal.com

Snjalltæki geta verið hentug barnapía en niðurstöður rannsóknar á 900 börnum á aldrinum sex til 18 mánaða benda til þess að notkun snjalltækja geti haft neikvæð áhrif á málþroska barna. Rannsóknin er sú fyrsta sem sýnir fram á að snjalltækjanotkun geti haft áhrif á málþroska.

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar jukust líkur á töfum í málþroska hjá börnum á aldrinum sex til 18 mánaða um 49% fyrir hverjar 30 mínútur sem börnin eyddu í snjalltækjum á dag.

Á milli tveggja og þriggja ára aldurs geta börn almennt átt samskipti í stuttum þriggja til fjögurra orða setningum. Þau börn í rannsókninni sem notuðu snjalltæki hvað mest áttu þó erfiðara með samskipti en þau sem minni tíma eyddu fyrir framan skjáinn.

Dr Catherine Birken, barnalæknir og ein þeirra sem framkvæmdi rannsóknina, hvetur foreldra til þess að halda börnum frá skjánum fram að 18 mánaða aldri.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru kynntar á ráðstefnunni Pediatric Academic Societies Meering í San Francisco fyrr í mánuðinum.