gmo-hero

Erfðabreytt matvæli eru umdeild og margar rannsóknir hafa verið birtar þar sem öryggi þeirra er skoðað. Sannleikurinn er samt sá að erfðabreytt matvæli hafa nú þegar bjargað mörgum frá hungursneyð og gætu bjargað enn fleirum, auk þess sem engar rannsóknir hafa sýnt óyggjandi fram á skaðsemi erfðabreyttra matvæla. Svo hvers vegna eru þau litin svona neikvæðum augum? Hópur sálfræðinga og líffræðinga skoðuðu hvað það er sem liggur að baki neikvæðra viðhorfa fólks í garð erfðabreytinga.

Helstu niðurstöður hópsins voru þær að ástæður andstöðu við erfðabreytt matvæli byggjast að miklu leiti á fyrsta innsæi og tilfinningum fólks. Þeir sem sjá hag sinn í að móta andstöðu gegn erfðabreyttum matvælum spila inná þessa þætti hjá almenningi til að búa til neikvæða ímynd af erfðabreytingum. Þar sem erfðabreytingar eru flókið fyrirbæri, erfitt að skilja þær til fullnustu og jafnvel erfiðara að afla sér upplýsinga um þær, er innsæi fólks oft byggt á almennum grunni en ekki endilega þekkingu á fyrirbærinu sjálfu.

Sem dæmi nota hópar sem berjast gegn erfðabreytingum rök eins og að allar lífverur séu tilkomnar af einhverri ástæðu og því sé rangt af vísindamönnum að reyna að breyta þeim. En þessar röksemdarfærslur stangast samt sem áður á við þekktar vísindakenningar líkt og þróunarfræðikenningu Darwins, sem segir að tegundir þróist vegna þeirra eiginleika sem þær þurfa yfir að búa hverju sinni á hverjum stað, svo tilkoma hverrar lífveru er í raun tilviljun háð.

Hingað til hafa raddir þeirra sem berjast gegn erfðabreyttum matvælum heyrst mun hærra en vísindamanna. Það er því ekki að undra að vísindamönnum gangi verr að fá fólk í sína fylkingu. Vísindamenn þurfa nauðsynlega að tala á mannamáli um erfðabreytingar, útskýra hvers konar fyrirbæri er um að ræða og sýna fram á það að hvert einasta tilvik erfðabreytinga er einstakt. Því er ekki hægt að dæma erfðabreytt matvæli útfrá aðferðinni sem er beitt heldur ætti að dæma erfðabreytt matvæli útfrá þeirri breytingu sem er verið að ná fram hverju sinni.

Höfundar greinarinnar, Stefaan Blancke og Geert De Jaeger, hafa nú þegar skipulagt opna fyrirlestra um erfðabreytt matvæli við háskólann í Ghent til að koma umræðunni af stað. Þeir hvetja aðra vísindamenn til að gera hið sama og gefa fólki þannig tækifæri á að kynna sér báðar hliðar málsins áður en afstaða er tekin.

Af þessu tilefni bendum við á fróðleiksmola Hvatans um erfðabreytt maltvæli.