Mynd: CIAT International Center for Tropical Agriculture
Mynd: CIAT International Center for Tropical Agriculture

Í opnu bréfi til Greenpeace gagnrýna 110 vísindamenn þá stefnu samtakanna að berjast gegn erfðabreyttum matvælum. Vísindamennirnir eiga það allir sameiginlegt að hafa unnið til nóbelsverlauna fyrir störf sín. Hópurinn gagnrýnir það sérstaklega að Greenpeace berjist gegn því að hrísgrjónategund sem kölluð er “golden rice” eða gyllt hrísgrjón komist á markað.

Í bréfinu segir meðal annars “þeir hafa mistúlkað áhættuna, ávinninginn, og áhrifin og stutt við glæpsamlega eyðileggingu samþykktra prófana og rannsóknarverkefna.”

Í bréfinu vísa vísindamennirnir til fjölda rannsókna og yfirlitsgreina sem hafa komist að þeirri niðurstöðu að erfðabreytt matvæli séu örugg til neyslu. Í raun hefur engin rannsókn hingað til bent til þess að neysla erfðabreyttra matvæla skaði mannfólk. Einnig benda þeir á að erfðabreytt matvæli séu besta leiðin til að fæða mannkynið í framtíðinni, enda fer fólki hratt fjölgandi á meðan auðlindum fækkar.

Þrátt fyrir niðurstöður rannsókna hefur Greenpeace beitt sér harðlega gegn erfðabreyttum matvælum. Samtökin hafa jafnvel eyðilagt uppskerur til að reyna að stöðva ræktun á erfðabreyttum matvælum.

Vísindamennirnir sem skrifa undir bréfið hafa sérstakar áhyggjur af andstöðu Greenpeace gegn gylltum hrísgrjónum. Gyllt hrísgrjón voru sérstaklega þróuð með það í huga að berjast gegn A vítamínskorti í heiminum en hrísgrjónin nýmynda beta-karótín sem er forveri A vítamíns.

Í dag þjást um 250 milljón börn af A vítamínskorti, samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni og telur UNICEF að hægt væri að koma í veg fyrir 1-2 milljón dauðsföll af völdum A vítamínskorts á ári með því að tryggja aðgang að vítamínininu. Vegna þess að hrísgrjón eru undirstaðan í mataræði í stórum hluta heimsins gætu gyllt hrísgrjón verið áhrifarík leið til að sporna gegn vandanum.

Að lokum segja vísindamennirnir „hversu margt fátækt fólk í heiminu þarf að láta lífið áður en við álítum þetta “glæp gegn mannkyninu?“.

Bréfið er liður í herferð sem nefnist Support Precision Agriculture og má lesa það í heild sinni hér.