MIT-Personalized-Med-1_0

Rannsóknarhópar um allan heim sem rannsaka alls kyns krabbamein keppast við að finna ný lyfjamörk sem gera krabbameinsmeðferð sérhæfðari gegn tilteknum gerðum af æxlum. Sérvirkari lyf eru líklegri til að hafa áhrif á krabbameinið auk þess sem þau eru ólíklegri til að valda miklum aukaverkunum. Gallinn við sérvirku lyfin er að það getur verið erfitt að vita hvenær á að beita þeim, en ný tækni sem þróuð hefur verið við MIT gæti verið svarið við því.

Í daglegu tali er yfirleitt talað um krabbamein sem einn sjúkdóm og í besta falli er hann skilgreindur frekar eftir því í hvaða líffæri hann kemur upp. Sannleikurinn er þó sá að orðið krabbamein er í raun bara yfirheiti á ótrúlega fjölbreyttri flóru sjúkdóma sem flestir eiga uppruna sinn í breytingum á erfðaefni einstaklings, breytingar sem gera það að verkum að ákveðnar frumur hætta að skynja umhverfi sitt og fara að vaxa óeðlilega hratt og mikið.

Til að tækla krabbameinsvöxt er því algengt að nota lyf sem miða á það sem flest krabbamein eiga sameiginlegt, hraðan vöxt, þau reyna því að drepa frumur í skiptingu. Þessi lyf hafa oft í för með sér hvimleiðar aukaverkanir og auk þess skila þau ekki alltaf tilætluðum árangri, að minnsta kosti ekki alltaf til lengri tíma.

Þess vegna hafa vísindamenn reynt að búa til krabbameinslyf sem eru sértækari fyrir hverja gerð krabbameina, það þýðir að reynt er að einblína á þær DNA breytingar sem verða í tilteknu krabbameini og finna þannig lyfjamörk. Með sértækari lyfjum eru meiri líkur á að virknin beinist einungis að krabbameinsfrumunum en einnig að öllum frumum krabbameinsins, líka þeim sem liggja í dvala eins og stofnfrumur krabbameina.

Þegar krabbameinssjúklingur kemur til læknis getur þó reynst erfitt að greina hvort og þá hvaða sértæku lyf henta tilteknum sjúklingi best. Til að komast að því þarf að taka lífssýni, þar sem hægt er annað hvort að skoða hvort tilteknar breytingar hafi átt sér stað í erfðaefninu eða rækta upp vefinn og athuga í frumurækt hvaða áhrif lyfin sem á að prófa hafa á vöxt frumnanna. Fyrir utan að vera tímafrek aðferð þá telst hún strax að hluta óáreiðanleg þar sem frumur í rækt haga sér ekki á sama hátt og frumur í vef.

Til að mæta þessum vanköntum hefur vísindahópur við MIT þróað lítið tæki, sem er á stærð við hrísgrjón, sem hægt er að koma fyrir inní æxlinu. Tækið inniheldur margvísleg krabbameinslyf sem það seitir út og hermir þannig eftir lyfjagjöf. Sólarhring seinna er tækið fjarlægt og þá er einnig tekinn bútur af æxlinu og það er svo skoðað með tilliti til frumudauða. Með þessu móti er hægt að meta hvaða lyf hafa áhrif á tiltekið krabbamein.

Nýlega birti hópurinn grein í Science Translational Medicine þar sem tækið er prófað í mannaæxlum sem komið var fyrir í músum. Tilraunirnar gáfu góða raun og nú standa vonir til að hægt verði að þróa tækið enn frekar svo ekki sé þörf á að bíða með að fjarlæga æxlisbútinn til greiningar og að fljótlega verði kallað eftir fólki í klínískar tilraunir á tækinu. Með tækinu er hægt að prófa mörg lyf í einu og að auki er hægt að seita lyfjablöndum, til að sjá hvort einhver sérstök samsetning henti betur en önnur.

Það verður áhugavert að fylgjast með framgangi mála í þessum efnum og vonandi leiðir þessi uppgötvun til skilvirkari meðferðar gegn krabbameinum sem oft svara illa lyfjameðferð.