birth-control-pill-packets

Getnaðarvarnir hafa lengi vel legið að mestu á herðum kvenna að miklu leiti vegna þess að æxlunarfæri þeirra eru mun meðfærilegri þegar hafa á áhrif á æxlunartaktinn. En það getur skipt bæði kynin miklu máli að geta dreift ábyrgðinni og því hafa vísindahópar lagt mikið kapp á að finna áhrifaríka leið til að hafa áhrif á frjósemi karla, án þess þó að fara í óafturkræfar aðgerðir.

Rannsóknarhópur við Boston Children’s Hospital hefur unnið að rannsókn sem gæti skilað nýrri tegund getnaðarvarna fyrir karla á markaðinn. Getnaðarvörnin snýr að því að stjórna sundhraða sæðisfrumnanna.

Halinn á sæðisfrumunum notast við jónagöng sem kallast CatSper til að auka kraft sinn til að ýta hausnum inní eggfrumuna. Þegar sæðisfrumur eru í návígi við kvenhormónið prógesterón binst hormónið við þessi jónagöng og virkjar þau þannig að sæðisfrumurnar fá aukinn hreyfikraft. Það eru þó nokkrir þættir sem hafa hamlandi áhrif á þessu göng, t.d. testósterón og stresshormón.

Rannsóknarhópnum þótti ekki fýsilegt að nota slík hormón vegna þeirra aukaverkanna sem þau gætu haft. Því var farið í að leita að sameindum í plöntum sem gætu unnið svipaða vinnu.

Lupeol er efni sem finnst meðal annars í jarðarberjum og ólífum. Þetta efni sýnir sömu bindieiginleika við CatSper og hamlandi hormón líkamans gera. Það þýðir að sé lupeol látið bindast við jónagöngin CatSper þá virka þau ekki sem skyldi og sæðisfrumann fær ekki aukinn kraft til að synda.

Enn sem komið er hafa þessar tilraunir bara farið fram á sameindastigi. Það verður forvitnilegt að sjá hvernig rannsóknir á frumum, dýrum og mönnum munu fara. Ef lupeol gefur jafn góða raun í klínískum prófum gætum við ekki einungis verið að horfa á nýja getnaðarvörn fyrir karlmenn heldur einnig nýja neyðargetnaðarvörn, sem hefur ekki áhrif á egg sem þegar hefur verið frjóvgað.