Kvef_mynd

Veirur samanstanda af erfðaefni sem er pakkað inní prótínhylki. Veirur eru oft flokkaðar eftir því hvers konar erfðaefni þær bera, þ.e.a.s. DNA eða RNA (sem er n.k. afrit af DNA). Erfðaefnið getur verið einþátta eða þvíþátta. Algengustu kvefveirur eru til dæmis með einþátta RNA. Margar fleiri sýkjandi veirur er af sama meiði, til dæmis HIV og Noro veirur.

Í rannsókn sem unnið var að við háskólana við Leeds og York í Bretlandi skoðuðu vísindamenn hvernig veirurnar fara að því að pakka erfðaefninu inní prótínhylki án nokkurra mistaka á örskömmum tíma. Það er nauðsynlegt fyrir veirurnar að ná að pakka sér rétt saman, ef einhver mistök verða þá missir veiran hæfnina til að sýkja og lifa.

Venjulega er erfðaefnið bara lesið línulega og upplýsingar genanna þýddar, þ.e. búin til prótín. Rannsóknir hópanna sýndu að skráning á þessu ferli er ekki línuleg í erfðaefninu heldur þarf erfðaefnið að mynda ákveðna byggingu til að kóðarnir fyrir pökkuninni verði lesanlegir. Þetta aukaflækjustig er orsakavaldur þess að vísindamenn hafa ekki getað séð áður hvernig veiran pakkar sér.

Í nýbirtri rannsókn notar hópurinn STNV (SatilliteTobaco Necrosis vírus) sem sýkir tóbaksplöntur, til að sýna enn frekar fram á hvernig hægt er að nota þessa kóða sem lyfjamark. En í rannsókninni sýnir hópurinn hvernig hægt er að hafa áhrif á skilvirkni pökkunarinnar með umhverfisþáttum eins og saltstyrk.

Fyrir utan það hverju rannsóknin getur bætt við þekkingu okkar um þróun lífs á jörðinni þá var hluti af henni að þróa líkan sem hægt væri að nota til að spá fyrir um hvar og hverjir kóðarnir væru fyrir fleiri sambærilegar veirur, þ.e.a.s. einþátta RNA veirur. Með hjálp líkansins væri hægt að finna lyfjamörk í vírusum sem eru þekktir fyrir að valda sýkingum í mönnum.

Hér má sjá fréttatilkynningu rannsóknarhópsins um málið