Mynd: Food Tank
Mynd: Food Tank

Við höfum flest ef ekki öll heyrt af þeim yfirvofandi vanda sem steðjar að heilbrigðiskerfum heimsins í formi sýklalyfjaþolinna baktería. Til að mæta þessum alvarlega vanda keppast vísindahópar við að finna ný sýklalyf sem sýklarnir hafa ekki myndað þol gegn og er því hægt að nota á sýklana sem hafa fengið viðurnefnið ofurbakteríur (superbugs).

Vísindahópur við Harvard tók hefðbundnar aðferðir við að leita að nýjum sýklalyfjum á næsta stig og árangurinn, sem birtisti í Nature er ótrúlegur. Hópurinn einbeitti sér að hópi sýklalyfja sem kallast makrólíðar. Til að finna möguleg ný sýklalyf smækkaði hópurinn lyfjaflokkinn niður í grunnbyggingareiningar og prófuðu svo nýjar samsetningar þannig að úr urðu 300 ný möguleg sýklalyf sem voru svo prófaðar með tilliti til virkni.

Það má eiginlega líkja þessari aðferð við leik með legókubba, sýklalyfin hafa ákveðnar byggingareiningar, eina grunnstoð sem er alltaf eins og svo eru efnahópar hengdir á mismunandi staði eða í mismiklu magni og svo framvegis. Hefðbundin leið við að leita að nýjum sýklalyfjum er að breyta einum hópi í einu. Harvardhópurinn tók því nýjan pól í hæðina og ákvað að prófa eins margar mögulegar sametningar og þau komust upp með.

Þó 300 ný lyf hljómi eins og hellingur og mögulegt svar okkar við skorti á sýklalyfjum þá verða niðurstöðurnar því miður ekki svo góðar. Ef um 10 ný sýklalyf koma útúr þessari rannsókn þá megum við fagna stórsigri, það er kannski einmitt þess vegna sem þessi nálgun er ekki mikið notuð. Hópurinn prófaði nýju lyfin á bæði hefðbundnar bakteríur sem og sýklalyfjaónæmar bakteríur og nokkur lyf sýndu svörun sem mögulegir vopn gegn þolnum sýklum.

Frekari prófanir á virkni lyfjanna fara nú fram og munum við sjá á næstu mánuðum hvort hópnum hafi tekist að þróa sýklalyf sem hægt verður að nota þegar sýkingar af völdum fjölónæmra baktería koma upp.