Mynd: Food Tank
Mynd: Food Tank

Við höfum flest ef ekki öll heyrt talað um þá vá sem steðjar að okkur með auknu sýklalyfjaónæmi baktería. Til að sporna við þessari hættu þurfa margir þættir að koma saman, svo sem skynsamleg notkun sýklalyfja og þróun nýrra lyfja sem bakteríurnar hafa ekki enn náð að mynda þol gegn.

Enn einn þátturinn hefur nú komið til sem á að hjálpa okkur í baráttunni við ónæmið. Rannsóknarhópur við University of Technology í Sydney birti nýlega grein þar sem farið er í gegnum kosti þess að fylgjast með bakteríum í umhverfi okkar og þá sérstaklega í umhverfi sjúkrahúsa.

Með því að taka reglulega sýni úr fráveitukerfum spítala og greina hvaða bakteríur og hvaða sýklalyfjaónæmi eru til staðar mun það auðvelda okkur að kortleggja hvernig ónæmið breiðist út. Þannig er hægt að spá fyrir um hvaða sýklalyf virka hverju sinni og hver þeirra virka síður.

Hingað til hefur ekki verið skimað sérstaklega eftir genunum sem geyma sýklalyfjaónæmið heldur hefur frekar verið horft á hvort ákveðnar bakteríur, sem vitað er að eru þolnar, séu til staðar. Hins vegar geta genin sem gera bakteríurnar ónæmar verið til staðar í öllum bakteríum, hvort sem þær eru skaðlegar manninum eða ekki. Þess vegna getur þolið verið til staðar í umhverfinu og auðvelt fyrir bakteríur að taka það upp og innleiða í sitt eigið erfðamengi.

Sé fylgst með umhverfinu á kerfisbundinn hátt gæti heilbrigðisstarfsfólk því verið skrefi á undan sýklunum hvað varðar sýklalyfjanotkun. Að auki gæti þetta hjálpað okkur að kortleggja hversu alvarlegur vandinn er orðinn og hvort einhverjar breytingar verða þar á samhliða ábyrgari notkun lyfjanna.