antibiotic resistance

Sýklalyfjaframleiðsla er heldur á undanhaldi í heiminum. Ástæðan er því miður sú að sýklalyfjaframleiðsla gefur ekki af sér mikinn gróða. Með aukinni tíðni sýklalyfjaónæmis minnka líkurnar á því að ný sýklalyf séu notuð nema ekkert annað dugi til. Til að minnka líkurnar á því að nýja lyfið seytli útí umhverfið og bakteríur myndi ónæmi fyrir því. Nýverið birtist grein í Science Advances þar sem lýst er hvernig ný útgáfa af þekktu sýklalyfi er framleidd í erfðabreyttri E. coli bakteriu.

Sýklalyfið sem um ræðir heitir erythromycin og að minnsta kosti þrjár útgáfur af því sem lýst er í greininni virðast virka vel gegn bakteríum sem eru þolnar fyrir erythromycin. Munurinn liggur í litlum en greinilega mjög mikilvægum breytingum á sameindinni sem er virka efnið í lyfinnu.

Það vekur kannski furðu að baktería skuli vera notuð til að framleiða lyfið, en E. coli er mikið notuð baktería í vísindum og höfundar greinarinnar lögðu mikla vinnu í að gera breytingar á bakteríunni í einmitt þessum tilgangi. E. coli er þá erfðabreytt svo hún í fyrsta lagi þoli sýklalyfin sem hún er að framleiða og í öðru lagi er skotið inní bakteríuna erfðaefni sem kóðar fyrir sameindinni sem sýklalyfið er og þannig framleiðir bakterían lyfið.

Helstu kostirnir við að nota E. coli til að framleiða lyf eru að bakterían vex mjög hratt en hún getur tvöfaldað sig á allt að 20 mínútum. Slíkur vaxtahraði gerir allar tilraunir og framleiðslu meðfærilegri. Að auki er mjög auðvelt að erfðabreyta bakteríunni, það getur verið mis erfitt að fá bakteríur til að innlima ókunnugt DNA en E. coli er ekki sérlega kresin á neitt slíkt. Flestir E. coli stofnar sem eru til gera engan skaða þó hún komist í tæri við menn en allar afurðir bakteríunnar eru samt sem áður hreinsaðar mjög vel áður en þær eru notaðar. Að lokum er rétt að taka fram að erfðabreyttir stofnar sem þessi fara aldrei út af tilraunastofunni og strangar reglur gilda um meðferð slíkra lífvera sem innihalda gen fyrir sýklalyfjaþoli, þær þarf til dæmis að drepa áður en þeim er fargað svo eitthvað sé nefnt.

Það eru því mikil gleðitíðindi að vísindahópnum við University of Buffalo hafi tekist að staðla aðstæður í E. coli svona vel og auk þess fást útúr því 3 útgáfur af sýklalyfi sem duga til að ráðast gegn bakteríum sem hafa myndað þol.