bionic lens

Ef marka má fréttir frá fyrirtækinu Ocumetrics Technology Corp gætu gleraugu og linsur brátt heyrt sögunni til. Fyrirtækið segir á vefsíðu sinni að þeim hafi tekist að þróa tækni sem veitir fólki sjón sem er þrisvar sinnum betri en það sem við köllum fullkomna sjón. Aðgerðina tekur aðeins átta mínútur að framkvæma og er sögð vera sársaukalaus.

Tæknin hljómar svolítið eins og hún sé of góð til að vera sönn og enn sem komið er hafa engar klínískar rannsóknir verið framkvæmdar til að sanna virkni hennar.

Að sögn fyrirtækisins virkar tæknin á svipaðan hátt og aðgerðir við starblindu. Augasteinninn er fjarlægður og gerviaugasteini frá fyrirtækinu komið fyrir í staðin.

Tæknin hefur þegar verið kynnt fyrir augnlæknum í San Diego og segir Dr Gareth Webb, forstjóri Ocumetrics, að viðtökurnar hafi verið góðar.

Ef klínískar rannsóknir ganga vel gæti verið að tæknin komi á markað eftir um tvö ár. Það verður spennandi að fylgjast með gangi mála og líklegt að margir væru ánægðir að losna við gleraugun fyrir fullt og allt.

Heimild: IFL Science