Mynd: WebMD
Mynd: WebMD

Enn berast fréttir af útbreiðslu zika veirunnar í Suður og Norður Ameríku. Nú þegar hefur verið staðfest að veiran veldur fósturskaða en hins vegar hefur enn ekki tekist að finna bólusetningu eða lyf sem gætu haldið sýkingunni í skefjum. Rannsóknarhópur við University of Wisconsin-Madison birti nýlega grein þar sem sýnt er fram á hvernig bakterían Wolbachia getur hindrað sýkingu zika og skyldra veira úr moskítóflugum.

Wolbachia er baktería sem lifir í og á moskítóflugum án þess þó að gera þeim nokkurn skaða. Bakterían virðist þó geta gert nokkuð gagn því í rannsókninni voru flugur sýktar með bakteríunni og síðan látnar drekka blóð úr zika sýktum músum. Flugurnar sem báru Wolbachia bakteríuna virtust síður sýkjast af zika veirunni en þær sem ekki báru Wolbachia bakteríuna. Þar að auki, þó flugurnar báru zika veiruna í sér þá komst veiran ekki í munnvatn flugnanna þegar Wolbachia var til staðar. Sú var ekki raunin með flugurnar sem ekki báru Wolbachia en til að flugurnar komi veirunni áfram í næsta fórnarlamb, við stungu, verður veiran að vera til staðar í munnvatni.

Næsta skref er að koma Wolbachia bakteríunni útí villta flugnastofna. Bakterían er nú þegar til staðar í náttúrunni, en til að hún nýtist til að koma í veg fyrir veirusmit verður útbreiðsla bakteríunnar að ná yfir miklu stærra hlutfall flugnastofnsins.

Nú þegar hafa einhverjar tilraunir verið gerðar með Wolbachia sýkta flugnastofna í náttúrunni, framkvæmdar í Ástralíu, sem hafa gefið mjög góða raun. Ein niðurstaða þeirra tilrauna er sú að bakterían virðist smitast milli kynslóða og einstaklinga sem er mjög ánægjulegt því það þýðir að ekki þurfi að endursmita stofninn heldur viðheldur bakterían sér sjálf.

Vonandi verður Wolbachia bakterían þess valdandi að veirusýkingar sem berast með moskítóflugum heyri brátt sögunni til, eða svo gott sem.