cancer-de-colon

Ristilkrabbamein er eitt af skæðustu krabbameinum sem við þekkjum. Nú á dögunum birtist grein í Nature Communications sem varpar ljósi á nýjan sökudólg í þróun þessara illvígu krabbameina.

Í rannsókninni var leitast eftir að finna breytingar á tjáningu gena í stað þess að leita að stökkbreytingum sem valda breytingum í virkni genaafurða. Með þessari nálgun rakst hópur Christophers J. Lengners á genið sem kóðar fyrir RNA bindiprótínið MSI2.

MSI2 binst við RNA sameindir í frumunni og hindrar þannig þýðingu þess á prótínform. Þegar gen eru tjáð eru þau fyrst umrituð af DNA-formi yfir á RNA áður en þau eru þýdd yfir í prótín. Prótín sem eru vinnueiningar frumnanna eru í flestum tilfellum lokaafurðir gena. Þegar MSI2 verður til í of miklu magni hefur það áhrif á framleiðslu prótína annarra gena. Þetta þýðir að MSI2 hefur áhrif á magn margra prótína og jafnvægi þeirra í frumunum.

Þegar tjáning á MSI2 var bæld í ristilkrabbameinsfrumum hafði það neikvæð áhrif á lifun frumnanna. Sem gefur til kynna að MSI2 er mikilvægt fyrir vöxt krabbameinsfrumna. Þegar hópurinn jók tjáningu gensins í músum hafði það afgerandi áhrif á mýsnar, en þeim leið mjög illa og dóu innan fárra daga. Þessi sjúkdómssýnd er í raun sú sama og sést í músum þegar APC vantar í mýs en APC er prótín sem vantar oft í ristilkrabbameinsfrumur.

Til að skoða hvernig MSI2 hefur áhrif í krabbameinum ákvað hópurinn að skilgreina hvaða genaafurðir voru að bindast við MSI2. Kom þá í ljós að MSI2 hefur áhrif á tjáningu margra þekktra og skilgreindra æxlisbæligena. Æxlisbæligen eru gen sem undir venjulegum kringumstæðum gegna því hlutverki að bremsa af frumuskiptingar og vöxt frumna. Þessi gen eru oft stökkbreytt í æxlum, þannig að þau sinna ekki lengur hlutverki sínu við að hamla æxlismyndun.Auk þess að bindast við afurðir þekktra æxlisbæligena þá virtist prótínið hafa áhrif í sama ferli og áðurnefnt APC prótín.

Þessar niðurstöður eru mikilvægar í leit okkar að sérhæfðum ristilkrabbameinslyfjum, en ef hægt væri að gefa lyf sem hindrar virkni MSI2 væri ef til vill hægt að draga úr æxlisvexti. En vonir rannsóknarhópsins standa einnig til þess að geta tengt MSI2 við viðhald krabbameinsstofnfrumna. Krabbameinsstofnfrumur eru frumur sem geta viðhaldið krabbameinum, jafnvel þótt takist að ráða niðurlögum einstakra æxla, þá eru krabbameinsstofnfrumurnar til staðar í vefnum og geta valdið því að krabbameinin skjóta upp kollinum seinna á lífsleiðinni.

Hægt er að lesa meira um rannsóknina hér.