Mynd: The New Indian Express
Mynd: The New Indian Express

Einhverfa er orðið vel þekkt ástand í nútímaþjóðfélagi. Þrátt fyrir síhækkandi tíðni einhverfugreininga virðist orsök einhverfunnar ekki sérlega augljós. Vísindahópar útum allan heim vinna þó í því að breyta þeim staðreyndum og nýjar rannsóknir bætast í safnið nær daglega.

Ein slík birtist í Journal of Autism and Developmental Disorders, 14. desember síðastliðinn. Rannsóknin var unnin við New York University og leitaðist við að skilgreina mun á heilum þeirra sem greinast með einhverfu samanborið við einstaklinga sem ekki greinast með einhverfu.

Í rannsókninni voru heilar 20 einstaklinga skoðaðir, eftir andlát, með vefjalitunum. Rannsakendur lituðu og mátu heilavefinn án þess að vita hvort vefurinn tilheyrði einhverfum einstakling eða ekki til að koma í veg fyrir skekkju í niðurstöðunum. Marktækur munur var á nýmyndun æða í vefjum einhverfra annars vegar og heilbrigðra einstaklinga hins vegar. Nýmyndun æða minnkar talsvert eða hættir að öllu leiti í heilanum eftir því sem einstaklingar eldast en slíkt var ekki að sjá hjá einhverfum einstaklingum.

Þessar niðurstöður benda til þess að mikið flökt sé á æðakerfinu í einhverfum einstaklingum. Telur vísindahópurinn að æðakerfið sé á sífelldri tilfærslu í heilanum sem leiðir til þess að efni sem berast í gegnum blóðrásina, svo sem súrefni og boðefni er ekki seytt á stöðugan hátt. Þessar niðurstöður gefa alveg nýja mynd á einhverfu en hingað til hefur mun meira verið horft á taugakerfið sjálft, frekar en kerfin þar í kring á borð við blóðrásina. Þessar niðurstöður gefa því tilefni til frekari rannsókna á þessu sviði og vonandi leiða þær að lokum til afgerandi svara varðandi orsakir einhverfu.